Fótbolti

FIFA verð­laun: Man City og enskar lands­liðs­konur á­berandi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Erling Braut Håland var í liði ársins hjá FIFA ásamt fimm samherjum sínum.
Erling Braut Håland var í liði ársins hjá FIFA ásamt fimm samherjum sínum. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA tilkynnti í kvöld lið, þjálfara og markvörð ársins 2023 í karla- og kvennaflokki við hátíðlega athöfn í Lundúnum.

Í karlaflokki voru leikmenn Manchester City áberandi en alls spila sex af 11 leikmönnum ársins með Englands- og Evrópumeisturunum. Real Madríd kom þar á eftir með þrjá leikmenn. Liðið var eftirfarandi:

  • Markvörður: Thibaut Courtois (Real Madríd)
  • Varnarmenn: John Stones, Kyle Walker (Man City) og Rúben Dias (allir Man City)
  • Miðjumenn: Bernardo Silva, Kevin de Bruyne (báðir Man City) og Jude Bellingham (Real Madríd)
  • Framherjar: Erling Braut Håland (Man City), Kylian Mbappé (París Saint-Germain), Lionel Messi (Inter Miami) og Vinícius Júnior (Real Madríd)

Í kvennaflokki voru enskar landsliðskonur einkar áberandi en alls voru sjö slíkar í liði ársins. Liðið var eftirfarandi:

  • Markvörður: Mary Earps (Manchester United)
  • Varnarmenn: Olga Carmona (Real Madríd), Lucy Bronze (Barcelona) og Alex Greenwood (Man City)
  • Miðjumenn: Keira Walsh og Aitana Bonmatí (báðar Barcelona), Alessia Russo (Arsenal), Ella Toone (Manchester United) og Lauren James (Chelsea)
  • Framherjar: Alex Morgan (San Diego Wave) og Sam Kerr (Chelsea)

Leikmenn ársins

Þjálfarar ársins

Pep Guardiola vann í karlaflokki enda stóð Man City, lið hans, uppi sem Englands-, Evrópu og bikarmeistari á síðustu leiktíð. Þá vann liðið HM félagsliða undir lok árs 2023. Simone Inzaghi, þjálfari Inter Milan, og Luciano Spalletti, fyrrverandi þjálfari Napólí og núverandi landsliðsþjálfari Ítalíu, voru einnig tilnefndir.

Í kvennaflokki vann Sarina Wiegman, þjálfari enska kvennalandsliðsins. Undir hennar stjórn fór England alla leið í úrslit HM kvenna síðasta sumar en þar laut liðið í gras gegn Spáni.

Markverðir ársins

Það vekur athygli að þrátt fyrir að vera í liði ársins þá var Courtois, markvörður Belgíu og Real Madríd, ekki kjörinn markvörður ársins. Þau verðlaun hlaut Ederson, markvörður Man City og Brasilíu. 

Í kvennaflokki vann Mary Earps, markvörður Man United og Englands, ásamt því að vera í liði ársins. Earps vann sömu verðlaun í fyrra en var hins vegar ekki í liði ársins. Hún gerði gott betur í ár.

Mark ársins

Hin frægu Puskas-verðlaun hlýtur flottasta mark hvers árs. Að þessu sinni kemur það úr B-deildinni í Brasilíu. Markið skoraði Guilherme Madruga, leikmaður Botafogo, gegn Novorizontino. Markið má sjá hér að neðan.

Háttvísisverðlaunin

Karlalandslið Brasilíu hlaut háttvísisverðlaun FIFA þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×