Fótbolti

Styrktar­þjálfarinn Óskar Örn skoraði og lagði upp

Siggeir Ævarsson skrifar
Óskar Örn lék lengst af með KR en gekk til liðs við Grindavík í fyrra
Óskar Örn lék lengst af með KR en gekk til liðs við Grindavík í fyrra Vísir/Bára Dröfn

Íslandsmeistarar Víkings fóru létt með 1. deildarlið ÍR í Reykjavíkurmótinu í dag en það má segja að styrktarþjálfari liðsins, Óskar Örn Hauksson, sem stal senunni í dag.

Lokatölur leiksins urðu 2-4 gestunum í vil. Hinn bráðum fertugi Óskar Örn Hauksson var á bekknum hjá Víkingum en hann er styrktarþjálfari liðsins síðan í haust. Óskar lék með Grindavík í Lengjudeildinni síðasta sumar og reiknuðu sennilega flestir með að skórnir væru komnir upp í hillu en Óskar missti af ófáum leikjum í sumar vegna meiðsla.

Óskar vildi þó ekki staðfesta neitt slíkt í haust og var mættur á bekkinn hjá Víkingum í dag og kom inn á. Þar gerði hann sér lítið fyrir og skoraði glæsilegt mark af um 25 metra færi og lagði svo upp annað.

Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Óskar skorar mark af löngu færi en eitt magnaðasta mark síðasta sumars skoraði Óskar frá miðju, í bikarleik gegn Val.

Mörk ÍR skoruðu þeir Stefán Þór Pálsson og Bragi Karl Bjarkason. Hjá Víkingum setti Erlingur Agnarsson tvö, Óskar Örn Hauksson skoraði eitt eins og áður sagði og þá kom eitt sjálfsmark.

Þetta var annar sigur Víkinga í jafn mörgum leikjum í Reykjavíkurmótinu en liðið hafði áður lagt Fylki að velli. Þetta var fyrsti leikur ÍR sem eru því án stiga í A-riðli.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af Fótbolti.net


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×