Erlent

Leynigöngum gyðinga í Brooklyn lokað og níu hand­teknir

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stórt gat var gert á vegginn á sýnagógunni, sem var endastöð ganganna.
Stórt gat var gert á vegginn á sýnagógunni, sem var endastöð ganganna. AP

Lögreglan í Brooklyn í New York-borg handtók níu meðlimi hasidíska gyðingasamfélagsins á mánudag vegna leyniganga sem þeir höfðu grafið frá höfuðstöðvum Chabad-Lubavitch-hreyfingarinnar að sögufrægri sýnagógu. 

Til átaka kom þegar borgaryfirvöld New York-borgar og leiðtogar hreyfingarinnar hugðust loka göngunum eftir að upp komst um göngin, sem eru ólöglega byggð.  

Að sögn Rabbi Motti Seligson, talsmanns Chabad-Lubavitch, sem heyrir undir hasidíska gyðingasamfélagið, bar hópur öfgafullra námsmanna ábyrgð á tilurð ganganna. Mennirnir níu eru ákærðir fyrir glæpsamlegt athæfi, að hafa stefnt sér og öðrum í ófyrirleitna hættu og fyrir að hafa hindrað aðgerðir yfirvalda. 

Níu voru handteknir í átökunum. AP

Tilgangurinn ráðgáta

Leynigöngin voru byggð undir fjölfarinni götu í Brooklyn þar sem höfuðstöðvar hreyfingarinnar eru staðsettar auk áðurnefndrar sýnagógu. 

Seligson segir mennina hafa grafið neðanjarðargöngin frá höfuðstöðvunum, undir röð skrifstofubygginga í götunni og inn í hlið sýnagógunnar, sem var endastöð ganganna. 

Tilgangur ganganna liggur þó ekki fyrir. Hér að neðan má sjá myndband þar sem einn notenda þeirra er gripinn glóðvolgur við að yfirgefa þau í gegnum eins konar ræsi meðan á rannsókn lögreglu stendur. 

Eyðileggingin við enda ganganna er talsverð.AP

Frétt The Guardian um málið má nálgast hér og myndband af átökunum frá miðlinum má sjá hér að neðan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×