Fótbolti

Svein­dís skoraði eftir að­eins þrettán mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir var á skotskónum með VfL Wolfsburg í dag.
Sveindís Jane Jónsdóttir var á skotskónum með VfL Wolfsburg í dag. Getty/Alex Gottschalk

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir var ekki lengi að komast á blað í sínum fyrsta leik eftir margra mánaða fjarveru vegna meiðsla.

Sveindís er stödd á Algarve í Portúgal þar sem lið hennar Wolfsburg er í æfingabúðum í vetrarfríinu.

Lið hennar spilaði æfingarleik á móti TSG Hoffenheim í dag og Sveindís kom Wolfsburg í 1-0 strax á 13. mínútu leiksins. Leikurinn hófst klukkan 15.30 að íslenskum tíma og er því enn í gangi.

Wolfsburg er í efsta sæti þýsku deildarinnar en Hoffenheim er í fjórða sætinu.

Sveindís er nýbyrjuð að æfa aftur eftir að hafa misst af öllum leikjum þýska liðsins síðan 17. september á síðasta ári. Sveindís missti líka af öllum sex leikjum íslenska landsliðsins í Þjóðadeildinni.

Hún skoraði í síðasta leik sínum fyrir meiðslin, 3-0 sigri á Leverkusen, í fyrstu umferð þýsku deildarinnar um miðjan september.

Það er gaman að sjá Sveindísi aftur inn á fótboltavellinum og ekki síst að sjá hana vera líka búna að reima á sig markaskóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×