Fótbolti

Karlalið Víkings lið ársins 2023

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Víkingar unnu tvöfalt á árinu, urði bæði Íslands- og bikarmeistarar.
Víkingar unnu tvöfalt á árinu, urði bæði Íslands- og bikarmeistarar. Vísir/Hulda Margrét

Karlalið Víkings í fótbolta var valið lið ársins 2023 á Íslandi. Frá þessu var greint á verðlaunahófi Samtaka íþróttafréttamanna í kvöld.

Víkingar urðu tvöfaldir meistarar á síðasta tímabili. Víkingur vann Bestu deild karla með miklum yfirburðum og varð svo bikarmeistari fjórða sinn í röð.

Víkingur fékk 116 stig í kjörinu. Í 2. sæti með 59 stig varð annað Víkingslið, kvennalið félagsins í fótbolta sem varð bikarmeistari og vann Lengjudeildina. Víkingar eru eina B-deildarliðið sem hefur orðið bikarmeistari.

Karlalið Tindastóls í körfubolta varð í 3. sæti í kjörinu með fimmtíu stig. Stólarnir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í fyrra eftir sigur á Valsmönnum í eftirminnilegu úrslitaeinvígi.

Alls tóku 28 íþróttafréttamenn þátt í kjörinu og valdi hver og einn bestu lið ársins að sínu mati. Efsta sæti gaf fimm stig, 2. sæti þrjú stig og það þriðja eitt stig.

Lið ársins

  1. Víkingur karla fótbolti 116
  2. Víkingur kvenna fótbolti 59
  3. Tindastóll karla körfubolti 50
  4. Breiðablik karla fótbolti 23
  5. Valur kvenna fótbolti 3
  6. ÍBV karla handbolti 1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×