Fótbolti

Anton Logi fylgir Óskari Hrafni til Noregs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton Logi Lúðvíksson er nýr leikmaður Haugesund í Noregi.
Anton Logi Lúðvíksson er nýr leikmaður Haugesund í Noregi. getty/Isosport

Miðjumaðurinn Anton Logi Lúðvíksson er genginn í raðir norska úrvalsdeildarliðsins Haugesund frá Breiðabliki.

Hjá Haugesund hittir Anton fyrir fyrrverandi þjálfara sinn hjá Breiðabliki, Óskar Hrafn Þorvaldsson. Anton er annar Íslendingurinn sem Óskar Hrafn fær til Haugesund á eftir Hlyni Frey Karlssyni sem kom frá Val.

Anton skrifaði undir fjögurra ára samning við Haugesund sem bjargaði sér naumlega frá falli úr norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Anton, sem er tvítugur, lék 34 leiki með Breiðabliki í Bestu deildinni og skoraði fjögur mörk. Sumarið 2021 lék hann fjórtán leiki með Aftureldingu í Lengjudeildinni. Anton varð Íslandsmeistari með Blikum 2022 og lék með liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu síðasta haust.

Anton hefur leikið 24 leiki fyrir yngri landslið Íslands og var valinn í A-landsliðið sem mætir Gvatemala og Hondúras í tveimur vináttulandsleikjum í Bandaríkjunum í þessum mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×