Fótbolti

Enginn fær að spila í tíunni á eftir Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar heimsmeistaratitlinum með Argentínu í desember 2022.
Lionel Messi fagnar heimsmeistaratitlinum með Argentínu í desember 2022. Getty/Chris Brunskill

Tían verður tekin úr umferð hjá argentínska karlalandsliðinu í fótbolta þegar Lionel Messi hættir að spila með landsliðinu.

Claudio Tapia, forseti argentínska knattspyrnusambandsins, lýsti þessu yfir í viðtali við spænska blaðið Marca.

„Þegar Lionel Messi hættir með landsliðinu þá má enginn spila í treyju númer tíu,“ sagði Tapia.

„Við heiðrum hann með því að taka tíuna úr umferð. Það er það minnsta sem við getum gert fyrir hann,“ sagði Tapia.

Lionel Messi fór fyrir argentínska landsliðinu sem varð heimsmeistari í þriðja sinn fyrir rúmu ári síðan. Þetta var fyrsti heimsmeistaratitill Argentínu síðan liðið undir forystu Diego Maradona varð heimsmeistari árið 1986.

Messi hefur skorað 106 mörk í 180 landsleikjum en hann er langleikjahæsti og langmarkahæsti leikmaður argentínska landsliðsins. Messi er með 33 fleiri leiki og 50 fleiri mörk en næsti maður á lista.

Aðrir leikmenn sem hafa spilað í tíunni með argentínska landsliðinu eru Diego Maradona,

Carlos Tevez, Juan Roman Riquelme, Pablo Aimar, Ariel Ortega, Alfredo di Stefano, Mario Kempes, Beto Alonso og Ricardo Bocchini.

Messi hefur ekki enn gefið tímamörk á tíma sinn með argentínska landsliðinu og talar um að hann vilji spila lengur ef skrokkurinn leyfir. Hvort hann verði með á HM 2026 verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×