Innlent

Á­fram skjálfta­virkni við kviku­ganginn

Atli Ísleifsson skrifar
Frá framkvæmdum í Grindavík á dögunum.
Frá framkvæmdum í Grindavík á dögunum. Vísir/Vilhelm

Um 110 skjálftar hafa mælst við kvikuganginn norðan Grindavíkur frá miðnætti en til samanburðar mældust 160 í gær. Enn eru taldar auknar líkur á eldgosi.

Þetta segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu á tíunda tímanum í morgun. „Ef við skoðum aflögunargögnin má sjá að það er nokkuð óbreytt staða frá í gær.“

Hann segir að starfsmenn Veðurstofunnar muni áfram vakta svæðið vel. „Við teljum áfram vera auknar líkur á eldgosi, líkt og sagði í fréttatilkynningu frá Veðurstofunni 29. desember. Við erum að vakta þetta mjög vel og teljum að ef skjálftavirkni tæki sig kröfulega upp þá geti það falið í sér aðdraganda að næsta eldgosi. Við verðum því að bíða og sjá.“

Auknar líkur

Í áðurnefndri tilkynningu sagði að land hefði haldið áfram að rísa við Svartsengi og að land hefði náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember. 

„Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum. Óvissa er hins vegar um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið,“ sagði í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

Lokun Bláa lónsins framlengd

Lokun Bláa lónsins sem tók gildi í kjölfar eldgossins við Sundhnúkagíga þann 18. desember síðastliðinn hefur verið framlengd til 3. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Bláa lónsins.

Á­fram heimilt að dvelja í bænum þó að lög­reglu­stjóri mæli gegn því

Íbúum Grindavíkur er áfram heimilt að fara í bæinn og dvelja heima hjá sér þrátt fyrir nýtt hættumatskort sem bendi til þess að auknar líkur séu á eldgosi norðan Grindavíkur. Þetta tilkynnir lögreglustjórinn á Suðurnesjum sem fundaði í dag um stöðu mála með fulltrúum almannavarna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×