Innlent

Yrði lík­lega afl­minna en gæti varað lengur

Atli Ísleifsson skrifar
Þorvaldur Þórðarson segir að virknin á Reykjanesskaga núna komi sérfræðingum í raun ekki á óvart.
Þorvaldur Þórðarson segir að virknin á Reykjanesskaga núna komi sérfræðingum í raun ekki á óvart. Vísir/Vilhelm

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að landrisið hafi haldið áfram við Svartsengi og sé nú á svipað statt og það var fyrir 18. desember þegar síðast byrjaði að gjósa.

„Hæðin á landrisinu er farin að nálgast það sem hún var fyrir síðasta gos. Þannig að við getum farið að búast við að eitthvað fari að gerast þegar landrisið hefur náð sömu hæð, sem gæti gerst á næstu tveimur dögum eða kannski teygt sig eitthvað fram yfir áramótin,“ segir Þorvaldur.

Hann var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann ræddi stöðuna á Reykjanesskaga. Hann telur, miðað við stöðuna nú, að ef komi til goss þá yrði það líklega aflminna en síðasta gos var í upphafi, en að það gæti þó varað lengur.

„Þó að landris nú sé að ná sömu hæð þá fór það ekki niður í sama núllpunkt og það var fyrir. Þetta er því styttri tími og kvikumagnið minna en var fyrir síðasta gos. Þannig að gosið verður sennilega minna ef eitthvað gerist nú þegar það er búið að ná þessari sömu hæð. Eða þá heldur þetta áfram og þá gæti safnast saman meira magn af kviku og þá, ef það kæmi til goss, þá yrði gosið stærra. Ég á heldur ekki von á að það verði eins aflmikið og síðasta gos var í byrjun. Verði kraftminna og gæti teygt sig lengra inn í framtíðina og verði lengra en síðasta gos,“ segir Þorvaldur.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum að neðan. 

Er þá líklegt að komi gos? Er það líklegasti möguleikinn eða sviðsmyndin?

„Ég myndi nú halda að það væri fifty-fifty hvort kvika komi alla leið upp til yfirborðs eða hvort hún haldi sér neðanjarðar og fari á eitthvað brölt þarna niðri.“

Þorvaldur segir að virknin á Reykjanesskaga núna komi sérfræðingum í raun ekki á óvart. „Þessi virkni sem er núna, þegar við erum komin með gliðnun og svo eldvirkni í gang, þá er þessi virkni í raun eðlileg atburðarás.“

Hann segir ekki hægt að segja til um það með vissu hvar kvikan kæmi upp. Líkurnar séu samt sem áður, eins og áður hafi komið fram, langmestar á að kvika komi upp þarna milli Hagafells og Stóra-Skógfells. „Ég á von á því að það haldi sér á því svæði,“ segir Þorvaldur. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×