Erlent

Skaut systur sína til bana eftir deilur um jóla­gjafir

Atli Ísleifsson skrifar
Skammbyssan sem notuð var til að bana konunni.
Skammbyssan sem notuð var til að bana konunni. Lögreglustjórinn í Pinellas

Lögregla í Bandaríkjunum hefur handtekið tvo bræður á táningsaldri eftir að systir þeirra var skotin til bana í kjölfar deilna um jólagjafir á heimili í Flórída.

Bandarískir fjölmiðlar segja að konan, sem var 23 ára, hafi verið skotin í bringuna af fjórtán ára bróður sínum þar sem hún hélt á tíu mánaða syni sínum í magapoka.

Bob Gualtieri, lögreglustjóri í Pinellas-sýslu, segir að annar bróðir, sem er fimmtán ára, hafi þá tekið fram byssu sína og skotið bróður sinn. Sagði Gualtieri að til átakanna hafi komið í kjölfar deilna um hver hafi fengið fleiri jólagjafir. 

Konan var flutt á sjúkrahús þar sem hún var úrskurðuð látin, en barn hennar, sem var í magapokanum, slapp ómeitt.

Sjá má upptöku af blaðamannafundi lögreglustjórans í Pinellas-sýslu að neðan. 

Gualtieri greindi frá því á fréttamannafundi að fimmtán ára bróðirinn hafi flúið af vettvangi og losað sig við byssuna, en yngri bróðirinn, fjórtán ára, hafi verið fluttur á sjúkrahús og er ástand hans sagt vera stöðugt. Hann verður færður í gæsluvarðhald þegar hann verður útskrifaður af sjúkrahúsi.

Saksóknarar fara nú yfir gögn í málinu og þurfa að meta hvort yngri bróðirinn verði ákærður fyrir morð á systurinni.

Eldri bróðirinn var handtekinn og er nú í haldi vagna gruns um tilraun til manndráps.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×