Erlent

Móðir og fjögur börn fundust myrt í Frakk­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Saksóknari segir að nágrannar hafi tekið eftir blóði á stéttinni fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Meaux á jóladag.
Saksóknari segir að nágrannar hafi tekið eftir blóði á stéttinni fyrir utan heimili fjölskyldunnar í Meaux á jóladag. EPA

Lögregla í Frakklandi hefur handtekið 33 ára karlmann eftir að kona og fjögur börn fundust látin í húsi skammt frá höfuðborginni París.

Franskir fjölmiðlar segja þau hafa fundist látin heimili sínu í bænum Meaux, austur af París, á jóladag. Börnin voru níu mánaða, fjögurra ára, sjö ára og tíu ára, en hinn handtekni er faðir barnanna.

Saksóknarar segja vinkona hinnar látnu hafa haft samband við lögreglu og lýst þar yfir áhyggjum sem varð til þess að lögreglumenn fóru á vettvang og fundu konuna og börnin látin.

„Heil fjölskylda var drepin, stungin með hníf í grimmilegri árás. Þetta er hræðilegt,“ segir Jean-François Cope, bæjarstjóri í Meaux, í samtali við AP.

Talsmaður lögreglu segir að engin merki hafi verið um innbrot í íbúðina og faðirinn hafi ekki verið á vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Maðurinn var svo handtekinn í grennd við bæinn Sevran nokkru síðar.

Saksóknari segir að nágrannar hafi tekið eftir blóði á stéttinni fyrir utan heimili fjölskyldunnar á jóladag. Er talið að móðirin og dæturnar, sjö og tíu ára, verið stungnar með hníf en að maðurinn hafi kyrkt eða drekkt yngri börnin tvö, fjögurra ára og níu mánaða.

Franskir fjölmiðlar segja að maðurinn sem grunaður sé í málinu hafi áður verið handtekinn eftir að hafa stungið móður barna sinna með hníf árið 2019. Rannsókn á því máli hafi verið felld niður þar sem maðurinn hafi ekki verið metinn sakhæfur. Tveimur árum áður hafði maðurinn verið lagður inn á geðdeild.

Morðin hafa vakið mikinn óhug í Frakklandi og vakið upp umræðu um heimilisofbeldi, en það sem af er ári hafa á annað hundrað kvenna verið drepin af maka sínum eða fyrrverandi maka í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×