Innlent

Dæmdur fyrir smygl á tvö þúsund töflum

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn hafði falið efnin í farangri og í pakkningum innan klæða.
Maðurinn hafði falið efnin í farangri og í pakkningum innan klæða. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimmtán mánaða fangelsi fyrir að hafa reynt að smygla samtals um tvö þúsund töflum af Oxycontin og fleiri lyfseðilsskyldum efnum til landsins með flugi í febrúar síðastliðnum.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, en hann kom til landsins með flugi til Keflavíkurflugvallar 20. febrúar 2023. Hann hafði falið efnin í tveimur pakkningum í farangri og svo tveimur pakkningum innan klæða. Maðurinn játaði brot sitt án undandráttar.

Um var að ræða 475 töflur af Oxycontin (80 mg), 207 töflur af Mdikinet (60 mg), 966 töflur af Alprazolam Krka, 148 töflur af Stesolid og 174 töflur af Stilnoct sem ætluð voru til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Oxycontin er verkjalyf, Medikinet örvandi lyf skylt amfetamíni, Stesolid og Alprazolam Krka róandi og kvíðastillandi lyf og Stilnoct svefnlyf. 

Í dómnum er meðal annars vísað til bréfs frá embætti landlæknis þar sem farið er yfir skaðsemi Oxycontin og andlát þeim tengdum.

Fram kemur að magn efnanna sem maðurinn hafi flutt til landsins hafi verið umtalsvert og að um hafi verið að ræða hættuleg efni til söludreifingar. „Af rannsóknargögnum málsins verður ekki séð að ákærði hafi verið eigandi fíkniefnanna eða skipuleggjandi innflutningsins en hefur hann samþykkt að flytja efnin til landsins. Aðkoma hans er þó ómissandi liður í því ferli að koma efnunum í dreifingu hér á landi.“

Dómari taldi að sakaferill mannsins hefði ekki teljandi þýðingu við ákvörðun refsingar í málinu sem var talin hæfileg fimmtán mánaða fangelsi. Var ekki alið efni til þess að skilorðsbinda refsinguna líkt og verjandi í málinu hafði krafist.

Manninum var jafnframt gert að greiða tæplega 700 þúsund krónur í sakarkostnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×