Fótbolti

„Þetta er nú bara svona á hverju ári“

Aron Guðmundsson skrifar
Árið hefur fært systkinunum Orra Steini og Emelíu stór tækifæri á sínum leikmannaferlum. Þá hefur faðir þeirra, þjálfarinn Óskar Hrafn, fengið stórt verkefni í Noregi í hendurnar.
Árið hefur fært systkinunum Orra Steini og Emelíu stór tækifæri á sínum leikmannaferlum. Þá hefur faðir þeirra, þjálfarinn Óskar Hrafn, fengið stórt verkefni í Noregi í hendurnar. Vísir/Samsett mynd

Það má með sanni segja að Orri Steinn Óskarsson hafi tekið stór skref á sínum fótboltaferli ár árinu sem nú er að líða. Eftir að hafa verið sendur á láni til liðs í næst efstu deild Dan­merkur í upp­hafi árs þá sneri Orri Steinn til baka þaðan í lið FC Kaup­manna­hafnar, meira reiðu­búinn en áður til þess að láta til sín taka.

Hann hefur verið við­loðandi aðal­lið fé­lagsins undan­farna mánuði og gert sig gildandi og hafa frammi­staða hans gert það að verkum að á árinu lék hann sína fyrstu A-lands­leiki og skoraði sitt fyrsta lands­liðs­mark fyrir Ís­lands hönd.

„Árið var mjög langt. Það var mikið að gerast, margir leikir. Ég byrja náttúru­lega árið á láni í næst­efstu deild hjá Sönderjyske. Var þar fram á sumarið og þá var maður ein­hvern veginn bara að ein­beita sér að því að verða betri leik­maður og vera klár fyrir FC Kaup­manna­höfn eftir sumarið.

Síðan var maður ekkert viss hvort maður væri klár í það en eftir að ég sneri aftur til fé­lagsins snerist þetta bara um að ég gripi mín tæki­færi. Myndi halda á­fram að bæta mig meira. Ég sýndi í mörgum leikjum að ég gæti spilað með í Meistara­deildinni og spilað stóra rullu í dönsku úr­vals­deildinni. Ég var mjög á­nægður með það.

Ég er bara mjög á­nægður með skrefin sem ég tók með FC Kaup­manna­höfn á árinu. Það sama hef ég að segja um skrefin með lands­liðinu. Það voru mjög skemmti­legir tímar sem ég upp­lifði á því sviði, mikill heiður.“

Orri var ekki sá eini úr fjöl­skyldu sinni sem tók stór skref á sínum ferli á árinu. Systir hans, hin 17 ára gamla Emelía, samdi við Dan­merkur­meistara HB Köge núna undir lok árs eftir að hafa látið til sín taka með Kristian­stad í Sví­þjóð.

Þá fékk faðir þeirra, Óskar Hrafn Þor­valds­son, stórt tæki­færi og spennandi verk­efni í hendurnar er hann var ráðinn þjálfari norska úr­vals­deildar­fé­lagsins FK Hau­gesund.

Enn fremur stýrði Óskar liðið Breiða­bliks, fyrst allra ís­lenskra karla­liða í riðla­keppni í Evrópu. Þar tók liðið þátt í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu.

„Þetta er nú bara svona á hverju ári. Maður er bara farinn að venjast þessu,“ segir Orri og hlær að­spurður um af­rek fjöl­skyldunnar á árinu sem er að líða.

„Emelía er alltaf geggjuð. Pabbi alltaf að gera eitt­hvað geggjað. Þau eru öll geggjuð. Ég er mjög stoltur af þeim.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×