Fótbolti

Leik­maður PSG og fjöl­skylda hans fangar á eigin heimili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandre Letellier er varamarkvörður franska stórliðsins Paris Saint-Germain.
Alexandre Letellier er varamarkvörður franska stórliðsins Paris Saint-Germain. Getty/Sportinfoto

Innbrotafaraldur heldur áfram hjá leikmönnum franska liðsins Paris Saint Germain og nýjasta fórnarlambið er markvörðurinn Alexandre Letellier.

Letellier og fjölskylda hans vöknuðu upp í nótt þegar öryggiskerfið fór í gang eftir að óboðnir aðilar brutust inn hjá þeim.

Fjórir innbrotsþjófar lokuðu Letellier, konu hans og tvö börn inn í einu herbergi heimilisins. Þeim var hótað með hnífum.  Börn eru aðeins tveggja og sex ára gömul. Konan var barin í andlitið á meðan hún hélt á öðru barnanna.  Hann var líka slegin en börnin sluppu við barsmíðar.

Þjófarnir reyndu þarna að komast yfir pening og skartgripi.

Lögreglan mætti hins vegar fljótt á staðinn og náði að handtaka þrjá af innbrotsþjófunum fjórum. Einn þeirra er 21 árs en hinir eru undir lögaldri. Einn af þjófunum komst í burtu á hlaupum en einn lögreglumannanna slasaðist í glímunni við mennina. Lögreglan beitti rafbyssu við handtöku eins mannsins.

Brotist hefur verið inn hjá mörgum leikmönnum PSG á síðustu misserum. Meðal þeirra er aðalmarkvörðurinn Gianluigi Donnarumma.

Letellier hefur spilað með franska félaginu frá 2020 og þriðji markvörður PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×