Fótbolti

Marka­drottningin í at­vinnu­mennsku: „Ég elska Sví­þjóð“

Sindri Sverrisson skrifar
Bryndís Arna Níelsdóttir fagnaði ófáum mörkum fyrir Val í sumar en er nú farin frá Hlíðarenda.
Bryndís Arna Níelsdóttir fagnaði ófáum mörkum fyrir Val í sumar en er nú farin frá Hlíðarenda. Vísir/Vilhelm

Hin tvítuga Bryndís Arna Níelsdóttir, markadrottning Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð, er gengin í raðir sænska knattspyrnufélagsins Växjö.

Bryndís Arna eltir þar með samherja sinn úr Íslandsmeistaraliði Vals, Þórdísi Elvu Ágústsdóttur, sem í síðasta mánuði var kynnt sem leikmaður Växjö.

Bryndís, sem vann sér inn sæti í A-landsliðinu nú í haust og lék sína fyrstu þrjá leiki fyrir liðið, varð markahæst í Bestu deildinni í ár með 15 mörk í 22 leikjum. Þetta var önnur leiktíð hennar með Val og í bæði skiptin varð hún Íslandsmeistari, en áður lék Bryndís með Fylki.

Á heimasíðu Växjö kveðst Bryndís hæstánægð með að vera orðin leikmaður félagsins.

„Ég elska Svíþjóð og mig hefur lengi langað til að spila þar. Ég átti mjög góð samtöl við þjálfarana og fékk meira að segja að koma í heimsókn og kynnast aðstæðum og svæðinu, áður en ég tók ákvörðun. Þar að auki er ég með litla fjölskyldu og vini í nágrenninu sem auðvelt er að heimsækja, svo það var góður bónus,“ sagði Bryndís.

Hún skrifaði undir samning sem gildir til næstu þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×