Fótbolti

Fyrsta tap Brann kom gegn franska stórliðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Natasha Anasi-Erlingsson lék með Keflavík, Breiðablik og ÍBV hér á landi og hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Ísland.
Natasha Anasi-Erlingsson lék með Keflavík, Breiðablik og ÍBV hér á landi og hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Ísland. UEFA

Natasha Anasi-Erlingsson lék allan leikinn í vörn Brann sem beið lægri hlut gegn stórliði Lyon í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Fyrir leikinn voru bæði Lyon og Brann með fullt hús stiga eftir tvo sigra í fyrstu tveimur leikjunum. Leikurinn í kvöld fór fram í Frakklandi og var Natasha Anasi-Erlingsson í byrjunarliði Brann í miðri vörn liðsins.

Kadidiatou Diani kom Lyon í 1-0 strax á 6. mínútu leiksins í kvöld og Ada Hegerberg bætti öðru marki við gegn löndum sínum þegar hún kom Lyon í 2-0 á 23. mínútu. Þetta var mark númer sextíu og eitt hjá Hegerberg í Meistaradeildinni.

Staðan í hálfleik var 2-0 og síðari hálfleikur byrjaði á svipaðan hátt og sá fyrri því Diani bætti við sínu öðru marki og þriðja marki Lyon þegar hún skoraði á 48. mínútu.

Justine Kielland minnkaði muninn fyrir Brann á 73. mínútu en lengra komst norska liðið ekki. Lokatölur 3-1 og Lyon nú í efsta sæti B-riðils og Brann í öðru sæti. St. Pölten sem sló Val út í umspili og Slavia Prag koma þar á eftir en bæði lið eru með eitt stig eftir jafntefli í leik þeirra liða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×