Erlent

Dular­fulli Brasilíu­maðurinn viður­kennir loksins að hann sé Rússi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mikhail Valerievich Mikushin á mynd sem tekin var í Kanada árið 2015. Þá gekk hann undir nafninu José Giammaria sem hann gerði enn þegar hann var handtekinn í Noregi í fyrra. 
Mikhail Valerievich Mikushin á mynd sem tekin var í Kanada árið 2015. Þá gekk hann undir nafninu José Giammaria sem hann gerði enn þegar hann var handtekinn í Noregi í fyrra. 

Maðurinn sem lögreglan í Noregi handtók í fyrra vegna gruns um að hann væri rússneskur njósnari og ofursti í rússnesku leyniþjónustunni, hefur nú loks viðurkennt að hann er Rússi. Fram til þessa hefur hann sagst vera brasilískur.

Í frétt norska fréttamiðilsins VG segir að maðurinn, sem var handtekinn í október 2022, hafi kynnt sig sem hinn 45 ára gamla Mikhail Valeryevich Mikushin frá Rússlandi í réttarhöldum í Ósló á dögunum. 

Þangað til þá hafi hann sagst heita José Assis Giamarria og að hann kæmi frá Brasilíu. Mikushin hafði starfað við háskólann í Tromsö og unnið þar við rannsóknir á Norðurslóðum og svokölluðum fjölþáttaógnum. Þar var hann ásakaður um njósnir. 

Per Niklas Hafsmoe, lögmaður hjá norsku öryggislögreglunni sagði í samtali  við VG að skömmu eftir handtöku mannsins hafi lögreglan sent rússneska sendiráðinu bréf þar sem spurt var hvort maður að nafni Mikhail Valeryevich Mikushin væri á landinu. Engin svör hafi þó borist, hvorki frá sendiráðinu né rússneska ríkinu. 

Hafsmoe segir lögregluna nú hafa sent sendiráðinu annað bréf þar sem beðið er um staðfestingu á að maðurinn sem um ræðir sé Mikushin. Hann hlakki til að sjá hvort svör fáist í þetta skipti. 

Handtekinn á leið til vinnu

Þann 24. október í fyrra var maðurinn handtekinn að morgni dags þegar hann var á leið til vinnu í háskólanum.  

Eftir handtökuna leið ekki á löngu þar til rannsóknir rannsóknarsamtakanna Bellingcat leiddu í ljós að maðurinn, sem sagðist þá vera Brasilíumaður, væri tvímælalaust Mikushin. Til að mynda hafi fundist mynd af ökuskírteini hans. 

Þá sýndu rússnesk gögn að hann hafi um tíma verið skráður til heimilis í heimavist skóla GRU, eða leyniþjónustu rússneska hersins. Þau gögn bentu til þess að Mikushin sé ofursti í leyniþjónustunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×