Fótbolti

Gló­dís Perla á toppinn eftir sigur í Ís­lendinga­slag

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla fagnar með liðsfélögum sínum.
Glódís Perla fagnar með liðsfélögum sínum. @FCBfrauen

Bayern München er komið á topp þýsku úrvalsdeildar kvenna í knattspyrnu eftir sannfærandi sigur á Bayer Leverkusen í kvöld. Ein íslensk landsliðskona var í sitthvoru byrjunarliðinu.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í liði Bayern á meðan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, sem er á láni frá Bayern, var í byrjunarliði Bayer Leverkusen.

Miðvörðurinn Magdalena Eriksson kom ríkjandi meisturum Bayern yfir strax á 6. mínútu eftir sendingu frá Klöru Bühl. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks en heimaliðið gerði út um leikinn snemma í síðari hálfleik.

Guilia Gwinn kom Bayenr í 2-0 á 53. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Jovana Damnjanović við þriðja markinu. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Bæði Glódís Perla og Karólína Lea spiluðu allan leikinn.

Bayern er komið á topp deildarinnar með 23 stig, stigi meira en Wolfsburg þegar bæði lið hafa leikið 9 leiki. Leverkusen er á sama tíma í 7. sæti með 13 stig en liðið hefur nú leikið fjóra leiki án sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×