Innlent

Kennir frænda Tómasar um at­burða­rásina: „Hann vissi vel í hvað stefndi“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Steinþór Einarsson, sakborningur málsins og Kolrún Benediktsdóttir, aðstoðarhéraðssaksóknari, er þau mættust á gangi Héraðsdóms Norðurlands eystra í dag.
Steinþór Einarsson, sakborningur málsins og Kolrún Benediktsdóttir, aðstoðarhéraðssaksóknari, er þau mættust á gangi Héraðsdóms Norðurlands eystra í dag. Vísir

Steinþór Einarsson, 37 ára gamall karlmaður sem er ákærður fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana á Ólafsfirði í október í fyrra, var spurður út í meint umferðarlagabrot sín í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Norðurlands eystra dag. Honum er gefið að sök að hafa ekið á bíl frænda Tómasar án ökuréttinda.

Þegar hann var spurður út í meint umferðarlagabrot neitaði hann sök og kenndi frændanum um umferðarlagabrotin, sem og atburðina sem leiddi til dauða Tómasar.

„Hann hefði vel getað komið í veg fyrir þetta allt saman. Hann hefði getað látið okkur vita hvernig Tómas væri, brýnandi hnífa og eitthvað,“ sagði Steinþór um frænda Tómasar, sem var einnig gestkomandi í húsinu á Ólafsfirði nóttina sem Tómas lést. Steinþór sagðist ekki þekkja frændann mikið.

„Hann viss vel í hvað stefndi. Atburðarásin skrifast alfarið á hann.“

Dómari og saksóknari minntust þá á að verið væri að spyrja hann út í meint umferðarlagabrot.

„Það væri alveg eftir honum að kenna mér um það líka,“ svaraði Steinþór. Líkt og áður segir neitar hann að hafa framið meint umferðarlagabrot. „Ég er ekki með bílpróf. Ég keyri ekki.“

Mynd úr öryggismyndavél sýndi krúnurakaðan eða sköllóttan ökumann bílsins. „Hann er snoðaður eins og ég,“ útskýrði Steinþór og gaf til kynna að frændinn hefði ekið bílnum.

Blaðamaður gat ekki sagt til um hvort maðurinn á myndinni sem varpað var á skjá í dómsal væri Steinþór.

Jógabolti til umfjöllunar

Tómas lét lífið vegna stungusára. Í aðalmeðferð málsins hélt Steinþór því fram að Tómas hefði ráðist á sig, stungið sig tvisvar með hníf, átök brotist út á milli þeirra sem enduðu með því að Tómas hneig til jarðar. Steinþór sagði það hafa komið sér á óvart.

Á meðal muna sem hafa verið til umfjöllunar fyrir dómi í dag er jógabolti sem var í húsinu á Ólafsfirði. Því hefur verið lýst að svo virðist sem boltinn hafi verið stunginn ítrekað.

Steinþór vissi um hvaða bolta ræddi, en kannaðist ekki við að hafa stungið hann. Jafnframt sagðist hann ekki hafa orðið vitni að því að Tómas hefði stungið hann.

Þegar Steinþór var spurður út í jógaboltann í annað sinn sagði hann: „Ég skil ekkert hvers vegna það er alltaf verið að spyrja út í þennan bolta. Nema jú að hann var stunginn,“ sagði hann. Þá sagði Steinþór að honum þætti skrýtið að boltinn hefði verið stunginn ítrekað, í hans huga þyrfti bara að gera það einu sinni svo hann myndi springa.

Sviðsettu atburðina

Fyrir dómi í dag sýndi sækjandi málsins myndband þar sem Steinþór sviðsetti átök milli sín og Tómasar í íbúðinni þar sem þau áttu sér stað. Steinþór lék sjálfan sig en lögreglumaður var í hlutverki Tómasar.

Myndrammanum var skipt í fernt og sýndi rýmið þar sem átökin brutust út frá fjórum mismunandi sjónarhornum. Frá þremur mismunandi hliðum og að ofan.

Sviðsetningin virtist að mestu í samræmi við lýsingar Steinþórs á atvikum málsins. Í upphafi situr hann í stól við eldhúsborð áður en átökin brjótast út og undir lokin skríður hann úr rýminu.

Á hljóðrás myndbandsins mátti heyra Steinþór útskýra atburðina fyrir þeim sem voru viðstaddir, en illa mátti heyra hvað hann hafði að segja.

Kolbrún Benediktsdóttir, aðstoðarhéraðssaksóknari, sagði myndbandið eitt þriggja þar sem atburðarásin væri sviðsett af Steinþóri. Þó væri um að ræða besta myndbandið, meðal annars vegna þess að í hinum hafi ekkert áhald verið til staðar sem táknaði hnífinn.

Hún bauð upp á að hin tvö myndböndin væru sýnd, en dómari og verjandi Steinþórs sögðu ekki ástæðu til þess. Í kjölfarið fóru aðilar málsins í vettvangsferð til Ólafsfjarðar.


Tengdar fréttir

Sagðist „alveg við það að drepa þennan hobbita“ rétt fyrir andlátið

Steinþór Einarsson, 37 ára gamall karlmaður sem er ákærður fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana á Ólafsfirði í október í fyrra, lét þau orð falla hálftíma áður en andlátið átti sér stað að hann væri „alveg við það að drepa þennan hobbita“. Þar vísaði hann til Tómasar.

Ætla til Ólafsfjarðar að skoða vettvang manndrápsins

Aðalmeðferð hófst í morgun í manndrápsmálinu á Ólafsfirði. Steinþór Einarsson er ákærður fyrir að hafa orðið Tómasi Waagfjörð að bana í október í fyrra. Steinþór ber fyrir sig neyðarvörn og segir Tómas hafa fyrst ráðist á sig með stóran hníf í hönd.

Tómas hafi reynt að myrða Steinþór áður en hann lést

Í greinargerð verjanda Steinþórs Einarssonar, sem ákærður hefur verið fyrir að myrða Tómas Waagfjörð á Ólafsfirði í október í fyrra, segir að ótvírætt sé að Tómas hafi fyrst lagt til Steinþórs með stórum hnífi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×