Erlent

Segir Argentínu­­mönnum að búa sig undir lost­­með­­ferð

Atli Ísleifsson skrifar
Javier Milei ávarpaði þjóð sína af svölum forsetahallarinnar í Buenos Aires.
Javier Milei ávarpaði þjóð sína af svölum forsetahallarinnar í Buenos Aires. AP

Javier Milei sagði Argentínumönnum að búa sig undir „lostmeðferð“ þegar hann ávarpaði þjóð sína í fyrsta sinn eftir að hafa svarið embættiseið sem nýr forseti Argentínu í gær.

Milei, sem er hægri popúlisti, varaði landsmenn við því að „peningarnir væru uppurnir“ og boðaði jafnframt strangar aðhaldsaðgerðir í efnahagsmálum.

Hinn 53 ára Milei vann óvæntan sigur í forsetakosningunum í landinu í nóvember síðastliðinn þar sem hann boðaði stórfelldar breytingar, en ástand efnahagsmála í landinu hefur verið mjög bágborið síðustu árin.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að ræða hins nýja forseta í gær hafi tekið af allan vafa um varðandi það að Argentínumenn eru í þann mund að verða vitni að stefnu í efnahagsmálum sem sé gjörólík þeirri sem fyrri forsetar hafa framfylgt. Hann sagðist munu þurfa að ráðast í stórfelldan niðurskurð sem ætlað væri að draga úr afleitri skuldastöðu ríkisins og draga úr verðbólgu sem mælist nú 140 prósent.

„Aðalmálið er að það er ekkert annað en aðhaldsaðgerðir í boði og það er ekkert annað en lostmeðferð í boði,“ sagði Milei. „Við vitum að til skamms tíma þá mun ástandið versna en við munum njóta ávaxta erfiðisins.

Milei boðaði kosningabaráttunni að hann myndi herða reglur um þungunarrof, slaka á vopnalöggjöf og þá segist hann vera mikill efasemdamaður þegar kæmi að loftslagsmálum.

Milei ávarpaði þjóð sína við forsetahöllina, en við hlið hans var systir hans, Karina, sem búist er við að verði mikil áhrifamanneskja á bak við tjöldin í stjórn Milei.


Tengdar fréttir

„Hinn klikkaði“ tantra-sérfræðingur nýr forseti Argentínu

Javier Milei, nýr forseti Argentínu, hefur heitið umfangsmiklum breytingum á ríkinu eftir kosningabaráttu sem hefur einkennst af miklum öfgum og heift. Forsetinn nýi hefur heitið því að grípa hratt til umfangsmikilla aðgerða.

Milei næsti forseti Argentínu

Javier Milei verður næsti forseti Argentínu eftir seinni umferð forsetakosninganna þar í landi sem fram fór í gær. Mótframbjóðandi hans vinstrimaðurinn Sergio Massa, sem er núverandi efnahagsráðherra landsins, hefur þegar hringt í hann og viðurkennt ósigur sinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×