Fótbolti

Mikael í undan­úr­slit á meðan Ís­­lendinga­lið Lyng­by er úr leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael er komin í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar.
Mikael er komin í undanúrslit dönsku bikarkeppninnar. Vísir/Getty Images

Íslendingalið Lyngby komst ekki í 8-liða úrslit dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. AGF, lið Mikaels Neville Anderson, er hins vegar komið áfram í undanúrslit.

Í 8-liða úrslitum er keppt heima og að heiman. AGF komst áfram þrátt fyrir 2-1 tap á útivelli gegn Bröndby þar sem liðið vann heimaleik sinn 2-0. Mikael spilaði 82 mínútur í leik dagsins.

Lyngby var í slæmum málum þegar liðið tók á móti B-deildarliði Fredericia í dag eftir 3-2 tap á útivelli. Þá var Kolbeinn Birgir Finnsson í leikbanni eftir að fá rautt spjald fyrir að sparka í vatnsbrúsa eftir að hann kom út af í þeim leik. Lyngby var einnig án Gylfa Þórs Sigurðssonar sem er að glíma við meiðsli.

Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliði Lyngby í dag á meðan Sævar Atli Magnússon var á varamannabekknum. Liðið gat vart byrjað verr en á fyrstu mínútu leiksins fékk gamla brýnið Andras Bjelland rautt spjald og Lyngby því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Tíu mínútum síðar komst Fredericia yfir og héldu gestirnir þeirri forystu allt til leiksloka þó svo að Sævar Atli hafi komið inn af bekknum á 58. mínútu, lokatölur 0-1.

Í gær féllu Orri Steinn Óskarsson og félagar í FC Kaupmannahöfn úr leik gegn Silkeborg en FCK er ríkjandi beikarmeistari. Það er hins vegar ljóst að liðið mun ekki verja bikarinn úr þessu.

Liðin sem eru komin í undanúrslit eru AGF, Nordsjælland, Silkeborg og Fredericia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×