Fótbolti

Segja að Haf­rún Rakel sé á leið til Brönd­by

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hafrún Rakel í leik með Blikum.
Hafrún Rakel í leik með Blikum. Vísir/Vilhelm

Hafrún Rakel Halldórsdóttir er við það að ganga í raðir Bröndby, topplið efstu deildar í Danmörku. Hún er uppalin í Aftureldingu en hefur spilað með Breiðabliki í Bestu deild kvenna síðan 2020.

Frá þessu er greint á Fótbolti.net. Ekki kemur fram hvenær skiptin verða klár en Hafrún Rakel er nýlega komin heim til Íslands eftir síðasta verkefni A-landsliðs kvenna í Þjóðadeildinni. Þar var hún í byrjunarliðinu í sigrinum á Wales og kom inn af bekknum í sigrinum gegn Danmörku.

Hafrún Rakel er áræðinn og fjölhæfur leikmaður sem getur spilað bæði sem bakvörður eða vængmaður. Þá getur hún leyst ákveðin hlutverk á miðsvæðinu sömuleiðis. Hafrún Rakel var í lykilhlutverki hjá Blikum á síðustu leiktíð en liðið endaði í 2. sæti Bestu deildarinnar.

Alls á hún að baki 57 leiki í efstu deild hér á landi sem og tíu Evrópuleiki. Hún hefur einnig leikið tíu A-landsleiki og skorað í þeim eitt mark. Kom það í 1-0 sigri á Austurríki fyrr á þessu ári.

Varnarjaxlinn Kristín Dís Árnadóttir spilar með toppliði Bröndby en hún einnig í raðir félagsins frá Breiðabliki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×