Innlent

Segir lík­legt að fisksalaferillinn sé að líða undir lok

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kristján Berg Fiskikóngur segir þetta líklega síðustu aðventuna sem hann selur skötu.
Kristján Berg Fiskikóngur segir þetta líklega síðustu aðventuna sem hann selur skötu. Vísir/Vilhelm

Kristján Berg Ásgeirsson, kenndur við Fiskikónginn, segir nokkur ár síðan hann fékk nóg af starfinu. Þetta sé líklega síðasta árið sem hann selji skötu fyrir Þorláksmessu áður en hann snúi sér að öðru.

„Þetta er mikil vinna. Alla daga vikunnar, allt árið um kring. Það er farið að síga á seinni hlutann,“ segir Kristján Berg Ásgeirsson, fiskikóngur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Auglýsingar hans um skötusölu fyrir Þorláksmessu óma nú í útvörpum landsmanna, þar sem hann tiltekur að þetta sé líklega síðast árið sem hann selji skötu.

Inntur að því segir Kristján vinnuumhverfið hafa breyst mjög síðan hann hóf fisksölu.

„Það er rosalega mikið farið út í tilbúna fiskrétti, eftirlit og annað er orðið allt of strangt að mínu mati og misjafnt milli landshluta. Það er svolítið að draga úr mér löngunina að vera starfandi í þessu umhverfi áfram. Byggingaeftirlit Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er mjög ósanngjarnt gagnvart þeim sem eru að reka veitingastaði og matarframleiðslu. Reglurnar eru allt of miklar og komið út í þvælu,“ segir Kristján. 

Hann segist ekki vera kominn með kaupanda en allt sé til sölu. 

„Elsti sonur minn, Alexander, hefur rekið Fiskikónginn með miklum sóma í þrjú ár. Ég hef varla komið þarna inn í eitt, eitt og hálft ár,“ segir Kristján. „Hann er held ég bara maðurinn sem tekur við þessu. Fiskikóngurinn sjálfur, það eru bara kynslóðaskipti í því.“

Hlusta má á viðtalið við Kristján í heild sinni í spilaranum hér að neðan:Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×