Fótbolti

Kristian fremstur í flokki á upp­leið Ajax

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristian Hlynsson hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður og raðar inn mörkum
Kristian Hlynsson hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður og raðar inn mörkum Jeroen van den Berg/Soccrates/Getty Images

Kristian Hlynsson skoraði annan leikinn í röð þegar Ajax lagði NEC Nijmegen 2-1 að velli. Alfons Sampsted fagnaði 3-1 sigri með Twente gegn Willumi Þór og félögum í Go Ahead Eagles. 

Ernirnir ekki að sækja úrslit

Twente og GA Eagles berjast um 4. sæti deildarinnar en sigurinn í dag gefur Twente gott átta stiga forskot. Willum Þór lék allan leikinn með GA Eagles en tókst ekki að koma sér á blað. Alfons Sampsted stóð vaktina í vörn Twente. 

Eftir að hafa sett þrjú mörk í tveimur góðum sigrum GA Eagles gegn Vitesse og Waalwijk hefur hægst á markaskorun Willums en liðið hefur aðeins náð einu stigi úr síðustu tveimur leikjum. 

Sjóðheitur Hlynsson í Ajax

Eftir afar erfiða byrjun á tímabilinu er Ajax taplaust í síðustu fimm leikjum og búið að vinna sig upp í 8. sæti deildarinnar, með leik til góða þar sem sigur gæti skotið þeim upp í 6. sætið. 

Kristian Hlynsson hefur fest sig í sessi sem byrjunarliðsmaður, í deildarkeppninni að minnsta kosti. Eftir að hafa skorað tvö mörk gegn Utrecht þann 22. október hefur Kristian byrjað síðustu sex leiki og nú skorað í tveimur í röð. 

Tækifærin hafa verið af skornari skammti í Evrópudeildinni en Ajax hefur gengið mjög illa þar, með tvö stig úr fimm leikjum og búnir að kveðja alla möguleika á að komast upp úr riðlinum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×