Erlent

Hrotta­legt nauðgunar­mál á Græn­landi

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bæði atvikin áttu sér stað í Nuuk.
Bæði atvikin áttu sér stað í Nuuk. Martin Zwick/Getty

Héraðsdómstóll Sermersooq á Grænlandi dæmdi 23 ára mann fyrir tvær hrottafengnar nauðganir.

Sermersooq er stjórnsýslueining sem inniheldur höfuðborgina Nuuk ásamt öðrum byggðum í suðvesturhluta landsins og á strjálbýlu austurströndinni. 

Starfsmenn yfirbuguðu hann

Nóttina 10. maí árið 2022 braust maðurinn inn í munaðarleysingjahæli í Nuuk.

„Þar þvingaði hann ellefu ára stelpu til munnmaka og reyndi að þvinga hana til samlífs. Öskur stelpunnar vöktu starfsmenn sem yfirbuguðu árásarmanninn og héldu honum þar til lögregla kom á vettvang.“ Þetta kom fram í tilkynningunni frá lögreglu þar í landi.

Samkvæmt Sermitsiaq fór maðurinn fyrir héraðsdóm í Sermersooq sem ákvað að hann skyldi úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Braut aftur af sér í gæsluvarðhaldi

Svo virðist sem ekki hafi verið nóg að láta manninn sæta gæsluvarðhaldi því hann hafi brotið á manni á meðan gæsluvarðhaldinu stóð. Hann hafi þvingað 61 árs gamlan mann til munnmaka og reynt að þvinga hann til endaþarmsmaka. Ofan á þetta var hann einnig ákærður fyrir líkamsárás, þjófnað og ólögmæta nauðung.

„Í sambandi við málið hefur maðurinn sætt geðrannsókn og hefur réttarlækningaráð gefið út álit á grundvelli athugunarinnar. Bæði skýrslan og geðrannsóknin áttu þátt í því að ákæruvaldið fari fram á fangelsisvist,“ segja lögregluyfirvöld.

Ánægður með niðurstöðu málsins

Gutti Harryson ríkissaksóknari segist vera ánægður með niðurstöðu málsins.

„Maðurinn hefur áður verið dæmdur fyrir tilraun til nauðgunar og nú er hann svo dæmdur fyrir tvær aðrar nauðganir. Maðurinn er því að því er mér finnst hættulegur samfélaginu. Því er ég mjög ánægður með niðurstöðu héraðsdómstóls í málinu,“ segir hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×