Fótbolti

KSÍ vill að ríkið taki þátt í að greiða fyrir pylsuna

Aron Guðmundsson skrifar
KSÍ hefur sent inn umsókn til fjárlaganefndar Alþingis
KSÍ hefur sent inn umsókn til fjárlaganefndar Alþingis Vísir/Samsett mynd

Knatt­spyrnu­sam­band Ís­lands hefur form­lega óskað eftir að­komu ís­lenska ríkisins að fjár­mögnun á leigu sambandsins á hita­pylsunni svo­kölluðu sem notuð hefur verið til að gera Laugar­dals­völl, þjóðarleikvang Íslendinga, leik­færan fyrir leikina sem fram hafa farið á vellinum núna undan­farnar vikur.

Fjár­hags­á­ætlun í tenglsum við leiguna á hita­pylsunni hljómar upp á 40 til 45 milljónir króna en nú þegar hefur hún verið notuð til þess að gera Laugar­dals­völl leik­færan fyrir leiki Breiða­bliks í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu sem og kvenna­lands­leik sem fór fram á vellinum þann 31. októ­ber síðast­liðinn.

Leikur Breiða­bliks og Mac­cabi Tel Aviv í Sam­bands­deild Evrópu í dag átti að fara fram á vellinum en var á síðustu stundu færður yfir á Kópa­vogs­völl. Ekki eru fleiri leikir á dag­skrá Laugar­dals­vallar á næstunni og því hlut­verki hita­pylsunnar hér á landi lokið.

Í um­sókn sem KSÍ sendir inn til Fjár­laga­nefndar Al­þingis skrifar Vanda Sigur­geirs­dóttir, for­maður sam­bandsins:

„Við búum við nýjan veru­leika í knatt­spyrnunni í Evrópu, þar á meðal hér á landi. UEFA (Knatt­spyrnu­sam­band Evrópu) hefur lengt mótin og nú er svo komið að reikna þarf með að hægt sé að leika knatt­spyrnu allt árið um kring.

Á þetta við um A lands­lið og fé­lags­lið, karla og kvenna. Auð­vitað viljum við fara í fram­kvæmdir og nota fjár­muni í það, frekar en leigu en það náðist ekki í haust og því var hita­pylsan það eina sem hægt var að gera.“

Ekki sé vitað um neitt annað land í Evrópu sem sé í þeirri stöðu sem Ís­land finnur sig í núna er varðar að­búnað þjóðar­leik­vangs.

„Við erum þess einnig full­viss að ekkert sér­sam­band hér á landi hafi þurft að greiða tugi milljóna til þess að gera Þjóðar­höll/Þjóðar­leik­vang leik­færan. Það er ekki rétt­látt að KSÍ þurfi að gera það, eitt sér­sam­banda.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×