Fótbolti

Þriggja vikna vinna í vaskinn

Aron Guðmundsson skrifar
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ Vísir/Arnar

Það er enn ekki ljóst hver mun taka á sig að kostnaðinn við undir­­búning Laugar­­dals­­vallar fyrir Evrópu­­leiki Breiða­bliks í vetur. Undir­­búningur síðustu þriggja vikna fyrir síðasta heima­­leikinn, sem fara átti fram á Laugar­dals­velli annað kvöld, er farinn í vaskinn með ein­hliða á­­kvörðun UEFA í gær og hyggst fram­­kvæmda­­stjóri KSÍ taka málið upp á fundi UEFA um komandi helgi.

Breiða­blik og ísraelska liðið Mac­cabi Tel Aviv áttu að mætast í 5. um­ferð riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu annað kvöld á Laugar­dals­velli. 

Seinni partinn í gær birtist hins vegar til­kynning frá UEFA þar sem greint var frá því að leikurinn hefði verið færður yfir á Kópa­vogs­völl og þá var leik­tímanum líka breytt. Leikurinn verður nú spilaður klukkan eitt.

Vallarstarfsmenn KSÍ hafa lagt mikla vinnu við að gera Laugardalsvöll leikhæfan og ljóst að sömuleiðis hefur töluverður kostnaður verið lagður í þá vinnu. Kostnaður sem er lagður í eitthvað sem hefur nú verið blásið af borðinu.

Hver borgar brúsann?

Margar vikur hafa liðið síðan að KSÍ leitaði eftir aðstoð frá barna- og menntamálaráðuneyti, Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ til að ná kostnaði niður við undirbúning Laugardalsvallar fyrir heimaleiki Breiðabliks í Sambandsdeildinni en enn er ekki ljóst hver/hverjir munu bera þann kostnað. 

„Nei. Þetta er allt í skoðun,“ segir Klara í samtali við Vísi.  „Þessi á­kvörðun UEFA seint í gær var ein­hliða. Við erum núna að reyna ná að­eins utan um þetta verk­efni og þurfum að gefa okkur tíma til þess.“

Er þetta bara allt í hnút? Eru menn ekki sam­mála um það hver eigi að greiða fyrir þetta?

„Þetta er bara enn í vinnslu og ekki komin niður­staða. Ég veit svo sem ekki hvaða á­hrif það hefur að hafa undir­búið leik á Laugar­dals­velli sem var síðan færður á annan völl með ein­hliða á­kvörðun en þetta er allt eitt­hvað sem þarf að skoða.“

„Núna erum við að vinna í því okkar megin að stoppa af það sem að við getum stoppað af svo við séum ekki að lenda í ó­þarfa kostnaði. Stoppa af sendingar sem við áttum von á fyrir leik og hætta að undir­búa völlinn.“

Eitt er þó ljóst og það er sú staðreynd að sú vinna sem vallar­starfs­menn Laugar­dals­vallar hafa sinnt frá síðasta leik á Laugar­dals­velli þann 9. nóvember síðast­liðinn, sem var leikur Breiða­bliks gegn Gent í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu, er farin í vaskinn.

Hringir bjöllum frá árinu 2020

Ekki er búið að leggja mat á það hversu kostnaðar­söm sú vinna hefur verið.  

„Nei við erum ekki komin svo langt. En það er alveg ljóst að starfs­menn vallarins hafa verið að dag og nótt, í orðsins fyllstu merkingu, við að undir­búa Laugar­dals­völl. Aðal fókusinn núna er að lág­marka fjár­hags­legt tjón. Svo verðum við bara að fara í hitt. Það er fundur hjá UEFA um helgina þar sem ég á von á því að við tökum þetta mál upp við full­trúa UEFA.“

Málið er keim­líkt stappi sem KSÍ stóð í árið 2020 þegar að sam­bandið varði 42 milljónum króna í að gera Laugar­dals­völl leik­hæfan fyrir leik Ís­lands og Rúmeníu í um­spili fyrir EM 2020.

UEFA frestaði um­ræddum leik og fékk KSÍ ekki krónu upp í þær 42 milljónir króna sem sam­bandið hafði varið í undir­búning Laugar­dals­vallar.

Ætlið þið að fara fram með svipaða beiðni til UEFA núna?

„Við munum að sjálf­sögðu taka það upp við UEFA og þá sér­stak­lega með það til hlið­sjónar að við vöruðum á­kaf­lega stíft við þessum mögu­leika og reyndum hvað við gátum að komast hjá því að hafa leik hér 30. nóvember. Á sama tíma getum við ekkert farið til UEFA og sagt „við sögðum ykkur þetta“. Við græðum ekkert á því.

Vissu­lega vöruðum við UEFA við því að ætla spila leik á velli sem er ekki með undir­hita undir lok nóvember. Að það gæti komið upp al­var­leg staða sem síðan raun­gerðist. Það var sett pressa á okkur að hafa völlinn til­búinn og við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til þess.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×