Fótbolti

Höfða hópmálsókn gegn Ronaldo

Aron Guðmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður portúgalska landsliðsins og Al-Nassr
Cristiano Ronaldo, leikmaður portúgalska landsliðsins og Al-Nassr Vísir/Getty

Portúgalska knatt­spyrnu­goð­sögnin Cristiano Ron­aldo stendur frammi fyrir hóp­mál­sókn á hendur sér í Banda­ríkjunum í tengslum við sam­starf sitt við Binance, einn stærsta raf­myntar­markað í heimi. Krefjast stefn­endur þess að Ron­aldo greiði sér því sem nemur einum milljarði Banda­ríkja­dala í skaða­bætur.

Starfshættir Binance eru nú til skoðunar og er fyrirtækið meðal annars sakað um að hafa greitt götu glæpa- og hryðju­verka­sam­taka í því að flytja fjármuni á milli heimshluta.

Það var í nóvember árið 2022 sem Binance svipti hulunni af sam­starfi sínu við Ron­aldo í gegnum fyrsta NFT (non-fungi­ble to­ken) „CR7“ safnið. 

Fjár­festingar­mögu­leiki sem Ron­aldo sagði sjálfur að myndi umbuna stuðnings­mönnum hans fyrir allan þann stuðning sem þeir höfðu sýnt honum í gegnum árin. 

CR7 vöru­merkið, sem er byggt í kringum í­mynd Portúgalans, á stóran þátt í því að hann er einn auðugasti í­þrótta­maður heims.

Ó­dýrustu eignirnar í CR7 safninu voru verð­metnar á 77 Banda­ríkja­dali í nóvember árið 2022. Nú ári seinna eru sömu eignir verð­metnar á einn Banda­ríkja­dal.

  • Hvað er NFT?

NFT eru í stuttu máli sýndar­eignir sem hægt er að kaupa og selja líkt og hluta­bréf. Þessar eignir eru að­eins til í staf­rænni mynd. Al­mennt eru NFT notuð til þess að stað­festa eignar­hald á ein­hverju, eins og mynd eða mynd­bandi á netinu.

Grunsamlegt athæfi tilkynnt til alríkisyfirvalda

Hneykslismál hafa skollið á Binance, undan­farnar vikur. Fyrir­tækið hefur verið sakað um að hjálpa við­skipta­vinum sínum að hjá refsi­að­gerðum víðs vegar um heiminn og auð­velda glæpa­hópum og hryðju­verka­samtökum að færa fjár­muni milli heimshluta.

Í síðustu viku sagði svo fram­kvæmda­stjóri Binance, Chang­peng Zhao, af sér í skugga á­sakana um peninga­þvætti. Á­sakanir sem nú hefur verið sýnt fram á að voru á rökum reistar og hefur Changpeng játað sök í málinu. Hann bíður nú næstu skrefa í sínu máli og á í millitíðinni ekki yfirgefa Bandaríkin.

Þar að auki hefur dóms­mála­ráðu­neyti Banda­ríkjanna gert Binance að greiða um 4,3 milljarða Banda­ríkja­dala í sekt og um leið til­kynnt grun­sam­lega starfs­hætti fyrir­tækisins til al­ríkis­yfir­valda.

Ronaldo hafi afvegaleitt þau

Þau sem standa fyrir hóp­mál­sókninni á hendur Ron­aldo segja hann hafa af­vega­leitt þau með sínum ein­dregna stuðningi við Binance og orðið til þess að þau fjár­festu í eignum sem hefðu aldrei skilað þeim öðru en tapi á endanum.

Í mál­sókninni, sem The At­hletic hefur undir höndunum, er því haldið fram að grunn­mark­miðið að baki sam­starfi Ron­aldo við Binance hafi verið að hjálpa fyrirtækinu að sanka að sér fleiri fjár­festum og bæta ímynd sína á Banda­ríkja­markaði.

Ronaldo í leik með Portúgal.

Stefn­endurnir halda því fram að Ron­aldo beri á­byrgð á því að þeir hafi tapað miklum fjármunum á því að festa kaup á eignum í CR7 safninu. 

Sú stað­reynd, að Ronaldo hafi verið að kynna NFT-safn sitt í sam­vinnu við Binance, hafi af­vega­leitt þá og talið þeim trú um að það væri ó­hætt að fjár­festa í öðrum NFT eignum í gengum Binance.

Ron­aldo hafi vitað, eða hefði átt að vita, að með ein­dregnum stuðningi sínum við Binance, án þess að gefa upp hversu mikið hann fékk greitt fyrir sam­starf sitt við fyrir­tækið, hafi hann stundað „ó­sann­gjörn og villandi vinnu­brögð“.

Er Ron­aldo sakaður um „við­varandi og á­rásar­gjarna“ kynningar- og aug­lýsinga­her­ferð sem hafi tekist „ó­trú­lega upp“ við að sanka að nýjum við­skipta­vinum fyrir Binance en í kjöl­far til­kynningar um sam­starf Ron­aldo við Binance jókst leit á nafni fyrir­tækisins í leitar­vélum um 500% og seldust stærstu eignir CR7 safnsins á innan við viku.

Nú þegar hópmálsóknin hefur litið dagsins ljós mun Ronaldo eiga færi á því að bregðast við henni. Næstu skref munu síðan ráðast í kjölfarið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×