Fótbolti

Á­kvörðun UEFA kom vallar­stjóra Laugar­dals­vallar á ó­vart: „Virki­legt högg“

Aron Guðmundsson skrifar
Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar
Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar Vísir/Arnar

Kristinn V. Jóhanns­son, vallar­stjóri Laugar­dals­vallar, segir það hafa verið virki­legt högg fyrir sig og starfs­fólk vallarins í gær­kvöldi þegar að þau fengu veður af á­kvörðun Evrópska knatt­spyrnu­sam­bandsins að færa leik Breiða­bliks og Mac­cabi Tel Aviv í riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu af vellinum yfir á Kópa­vogs­völl. Margra vikna vinn er nú farin í súginn og segir Kristinn að vel hefði verið hægt að spila leikinn á Laugar­dals­velli sem sé í mjög góðu á­sig­komu­lagi.

Breiða­blik og ísraelska liðið Mac­cabi Tel Aviv áttu að mætast í 5. um­ferð riðla­keppni Sam­bands­deildar Evrópu annað kvöld á Laugar­dals­velli. Seinni partinn í gær birtist hins vegar til­kynning frá UEFA þar sem greint var frá því að leikurinn hefði verið færður yfir á Kópa­vogs­völl og þá var leik­tímanum líka breytt. Leikurinn verður nú spilaður klukkan eitt.

Á­kvörðunin kom vallar­starfs­mönnum Laugar­dals­vallar, sem hafa lagt ó­mælda vinnu í að halda vellinum leik­hæfum undan­farna mánuði, í opna skjöldu.

„Á­stand vallarins er mjög gott. Mín skoðun er sú að við hefðum hik­laust geta spilað hérna klukkan eitt á morgun. Við hefðum einnig geta spilað hérna hálf fjögur. Það hefði verið erfiðara annað kvöld en að­stæður á Laugar­dals­velli eru mjög góðar.

„Á­kvörðunin er bara tekin af UEFA seint í gær. Þeir töldu að völlurinn væri ekki 100% öruggur á leik­dag. Á­kvörðunin þeirra byggir á því,“ segir Kristinn í sam­tali við Vísi.

Ákvörðun sem kemur mjög á óvart

Mættu þá ein­hverjir mats­menn á vegum UEFA og könnuðu á­stand Laugar­dals­vallar eða hvernig fer þessi á­kvörðunar­taka fram?

„Nei. Ég hef alla­vegana ekki séð neina mats­menn hér. Við erum vissu­lega búin að vera í stöðugu sam­bandi við UEFA varðandi vallar­að­stæður hér síðustu tíu daga. Höfum upp­lýst þá um veður­spár og okkar á­hyggjur eða sjónar­mið á því hve­nær væri best að spila leikinn. Þeir fylgdust því með og mátu það greini­lega þannig að besta niður­staðan fyrir leikinn væri að færa hann af Laugar­dals­velli.“

Er þetta á­kvörðun sem þú ert sam­mála? Hefði verið hægt að spila þennan leik á Laugar­dals­velli?

„Á­kvörðunin kom mér mjög á ó­vart því þú ert að færa leik af gras­velli klukkan átta um kvöld yfir á gervi­gras­völl klukkan eitt um daginn. Þarna er um mikið bil að ræða. Það var, að mínu mati, hægt að skoða aðra mögu­leika áður en menn komust að þessari niður­stöðu.“

Þriggja vikna vinna til einskis 

Vallar­starfs­menn Laugar­dals­vallar hafa vaktað leik­flötinn sólar­hringum saman undan­farnar vikur. Þá hefur verið lagt í mikinn kostnað við að fá hingað til lands svo­kallaða hitapulsu til þess að breiða yfir völlinn og verja hann.

Hitapulsan sem hefur hulið Laugardalsvöll. Vísir/Arnar

Þann 9. nóvember síðast­liðinn fór síðast fram leikur á Laugar­dals­velli. Það var leikur Breiða­bliks og Gent í riðla­keppninni og því mætti segja að vinna vallar­starfs­manna Laugar­dals­vallar síðustu þriggja vikna sé farin í súginn.

Hvert er á­stand vallarins núna?

„Á­stand vallarins er mjög gott. Mín skoðun er sú að við hefðum hik­laust geta spilað hérna klukkan eitt á morgun. Við hefðum einnig geta spilað hérna hálf fjögur. Það hefði verið erfiðara annað kvöld en að­stæður á Laugar­dals­velli eru mjög góðar. Þessi niður­staða kom mér og starfs­fólki Laugar­dals­vallar því mjög á ó­vart.“

Horfandi á það hversu mikla vinnu þið hafið lagt á ykkur við að halda Laugar­dals­velli leik­hæfum, hvernig til­finningar bærast um innra með þér nú þegar á­kvörðun hefur verið tekin um að færa leikinn af vellinum?

„Þetta var virki­legt högg í gær­kvöldi. Bara svona í ljósi þeirra vinnu og þeim tíma sem við höfum varið í að halda Laugar­dals­velli leik­hæfum. Þegar að stefndi í Breiða­blik myndi tryggja sér sæti í riðla­keppni Sam­bands­deildarinnar á sínum tíma fór strax af stað undir­búnings­vinna. Hún hófst ekki í síðustu viku, þetta hefur verið í gangi hjá okkur síðan í ágúst fyrr á þessu ári með á­kveðnum fram­kvæmdum á vellinum.“

Undir hitapulsunni Vísir/Arnar

„Ég breytti okkar á­ætlunum því við vissum að við yrðum með leiki á Laugar­dals­velli út nóvember. Sú á­ætlun hefur gengið ó­trú­lega vel og við vorum vel á á­ætlun með völlinn. Það' hefði verið frá­bært að geta endað þetta álag á leik hérna á Laugar­dals­velli á morgun. Því miður verður það ekki raunin.“

Nú hefst vinna við að koma Laugar­dals­velli í vetrar­dvala ekki eru fleiri leikir á dagskrá vallarins fyrr en á næsta ári. 

„Við gengum frá að­eins í gær þessum helstu hlutum og fórum heim. Núna tekur við frá­gangur næstu daga fram í næstu viku. Það þarf að koma vellinum í vetrar­búning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×