Innlent

Óttast að vopnavæðing lög­reglu auki of­beldi í sam­fé­laginu

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögreglan fékk nýlega heimildir til að beita rafbyssum. Þá var mikið magn skotvopna keypt til landsins vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í maí.
Lögreglan fékk nýlega heimildir til að beita rafbyssum. Þá var mikið magn skotvopna keypt til landsins vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins í maí. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Pírata gagnrýnir aukinn vopnaburð lögreglu með rafbyssum og óttast að hann muni stigmagna ofbeldi í samfélaginu.  Dómsmálaráðherra segir enga stefnubreytingu hafa átt sér stað varðandi valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, hóf sérstaka umræðu um vopnaburð lögreglunnar á Alþingi í dag. Hún rifjaði upp nýlegar heimildir lögreglunnar til beitingu rafbyssa og mikið magn af skotvopnum sem keypt hefðu verið vegna leiðtogafundarins í Hörpu í sumar.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir segir rannsóknir sýna að aukinn vopnaburður lögreglu auki á ofbeldi í samfélaginu.Vísir/Vilhelm

Þingmaðurinn sagði að afbrotatölur sýndu ekki fram á aukið ofbeldi í samfélaginu nema hjá afmörkuðum hópi ungmenna. Hún spurði dómsmálaráðherra hvort rétta svarið væri að vopna lögregluna.

„Samkvæmt rannsóknum eru lögregluþjónar sem bera rafbyssur hins vegar helmingi líklegri til að beita valdi í störfum sínum, miðað við lögreglumenn sem bera hvorki skotvopn né rafbyssur. Einnig hefur verið sýnt fram á að líklegra sé að ráðist sé á þá,“ sagði Arndís Anna.

Hún spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra hvort hún hefði engar áhyggjur af stigmögnun vopnaburðar á Íslandi eftir „þessar umbyltingar lögreglustarfa á Íslandi.“

„Hyggst hæstvirtur ráðherra halda áfram á sömu vegferð með aukinni hörku og hugsanlega frekari vopnavæðingu lögreglunnar. Og síðast en ekki síst, spyr ég hæstvirtan dómsmálaráðherra, kemur til greina að stíga skref til baka og endurhugsa þessa stefnu,“ sagði Arndís Anna.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir ástæðu til að hafa áhyggjur af fjölgun skipulagðrar brota og vopnaburði.Vísir/Vilhem

Dómsmálaráðherra sagði að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefði alvarlegum ofbeldisbrotum og vopnuðum útköllum lögreglu og sérsveitar ríkislögreglustjóra fjölgað á síðustu árum.

„Sem dæmi má nefna að fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna skotvopna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2016,“ sagði Guðrún. Þá hefði embætti ríkislögreglustjóra bent á að hér á landi væri aukin ógn vegna skipulagðrar brotastarfsemi og aukin umsvif fjölþjóðlegra brotahópa væru merkjanleg hér á landi.

„Ekkert hefur breyst í skilyrðum fyrir vopnaburði lögreglu. Engin stefnubreyting hefur verið gerð og ekki stendur til að gera breytingar á valdbeitingarheimildum lögreglu,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir.


Tengdar fréttir

Ís­­lenska lög­reglan kynnist raf­­byssunum um­­­deildu

Undirbúningur lögreglu fyrir komu rafbyssa er nú í fullum gangi undir handleiðslu erlendra sérfræðinga. Íslensk lögreglukona segir alveg nóg að prófa einu sinni að vera skotin og fá fimm sekúndna rafstraum úr vopninu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×