Fótbolti

Ronaldo bað dómarann um að snúa við dómnum eftir að hann fékk víti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo bað dómara leiksins að endurskoða vítaspyrnudóm.
Cristiano Ronaldo bað dómara leiksins að endurskoða vítaspyrnudóm.

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo er einn mesti markaskorari sögunnar, en hann verður þó ekki sakaður um markagræðgi eftir leik kvöldsins í asísku Meistaradeildinni.

Ronaldo og félagar hans í Al-Nassr mættu íranska liðinu Persepolis í Meistaradeild Asíu í kvöld og strax á annarri mínútu féll portúgalski framherjinn við innan vítateigs.

Dómari leiksins, hinn kínverski Ma Ning, flautaði í flautu sína og dæmdi vítaspyrnu, en Ronaldo var ekki sammála dómnum og sannfærði dómara leiksins um að endurskoða dóminn. Ma Ning var að lokum sendur í VAR-skjáinn góða og snéri dómnum við eftir að hafa skoðað atvikið betur.

Heiðarleiki Ronaldo varð svo líklega til þess að gestirnir í Persepolis nældu í stig í leiknum því niðurstaðan varð að lokum markalaust jafntefli. Al-Nassr hafði þegar tryggt sér sæti í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar, en liðið situr nú á toppi E-riðils með 13 stig eftir fimm leiki, fimm stigum meira en Persepolis sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×