Innlent

Hnífstunguárás í nótt sögð tengjast á­rásinni á Litla-Hrauni

Árni Sæberg skrifar
Menn hafa verið handteknir vegna málsins.
Menn hafa verið handteknir vegna málsins. Vísir/Vilhelm

Hnífstunguárás sem framin var í nótt tengist annarri árás á Litla-Hrauni í gær. Þetta herma heimildir Ríkisútvarpsins. Eggvopni var sömuleiðis beitt í árásinni á Litla-Hrauni og sú árás er sögð tengjast skotárásinni í Úlfarsárdal í byrjun mánaðar. 

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Ríkisútvarpið að hnífstunguárás hafi verið framin í nótt og segir að árásarþoli sé ekki í lífshættu.

Þá er haft eftir honum að handtökur hafi átt sér stað í tengslum við árásina en að ekki liggi fyrir hvort tekist hafi að hafa hendur í hári árásarmannsins.

Heimildir Rúv herma að árásin í nótt tengist árás á Litla-Hrauni í gær. Vísir greindi frá því í gær að einn liggi þungt haldinn á spítala eftir árás samfanga með einhvers konar eggvopni á fjórtánda tímanum í gær.

Heimildir Vísis herma að sú árás tengist skotárás sem framin var að Silfratjörn í Úlfarsárdal í upphafi þessa mánaðar. Nútíminn greindi svo fyrst frá því að Ingólfur Kjartansson, rúmlega tvítugur fangi, sé grunaður um árásina í gær. Hann hlaut nýverið átta ára fangelsisdóm fyrir skotárás í Bergstaðastræti og hefur verið sagður náinn vinur mannsins sem skotinn var í fótinn í Silfratjörn.

Ekki hefur náðst í Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×