Fótbolti

Stjórn­völd í Venesúela: Þeir rændu fót­bolta­lands­liðinu okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmönnum Venesúela lenti saman við perúsku lögregluna eftir leik þegar reyndu að þakka stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn í leiknum.
Leikmönnum Venesúela lenti saman við perúsku lögregluna eftir leik þegar reyndu að þakka stuðningsmönnum sínum fyrir stuðninginn í leiknum. Getty/Daniel Apuy

Perú og Venesúela gerðu 1-1 jafntefli í undankeppni HM í vikunni í leik sem fór fram í Lima í Perú. Venesúelamenn hafa nú sakað Perú um að ræna fótboltalandsliði þjóðarinnar.

„Þetta er mannrán og þeir voru að hefna sín á okkar liði sem spilaði flottan leik í Lima,“ skrifaði Yvan Gil, utanríkisráðherra Venesúela, á samfélagsmiðla eftir leikinn.

Stjórnvöld í Venesúela voru mjög ósátt með framkomu Perúmanna eftir leikinn.

Ástæðan fyrir því að utanríkisráðherrann talar um mannrán er meðal annars sú að flugvél landsliðsins fékk ekki að taka eldsneyti á flugvellinum áður en hún flaug með landsliðsmennina heim til Venesúela.

Deilur þjóðanna hófst þó fyrr þegar leikmenn venesúelska landsliðsins sökuðu lögregluna í Perú um að berja þá þegar þeir reyndu að komast til stuðningsmanna sinna til að þakka þeim fyrir stuðninginn í leiknum.

Þegar flugvélin fékk ekki að taka eldsneyti og gat þar með ekki komist á loft, þá gekk utanríkisráðherrann svo langt að tala um mannrán. Perúsk stjórnvöld telja þessi ummæli ekki vera svaraverð.

Flugvélin fór loksins á loft en fjórum tímum seinna en hún átti að gera.

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, hefur líka blandað sér í málið og sakaði hann stjórnvöld í Perú um að beita landsliðsmenn sína útlendingahatri.

Perúmenn eru á botni riðilsins en á sama tíma hafa Venesúelamenn komið mikið á óvart með því að vera í fjórða sæti og undan Brasilíu, Ekvador og Síle sem dæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×