Fótbolti

Þjálfari Júlíusar sak­felldur

Aron Guðmundsson skrifar
Mikkjal Thomassen, þjálfari Fredrikstad
Mikkjal Thomassen, þjálfari Fredrikstad Mynd: Fredrikstad

Mikkjal Thomas­sen, þjálfari norska knatt­spyrnu­fé­lagsins Fredrikstad, hefur verið dæmdur í þrjá­tíu daga skil­orðs­bundið fangelsi af dóm­stóli í Fær­eyjum í kjöl­far hótunar sem hann beindi að knatt­spyrnu­manni í Fær­eyjum í fyrra.

Frá þessu greindi TV2 í Noregi en hjá Fredrikstad hefur Mikkjal meðal annars þjálfað ís­lenska lands­liðs­manninn Júlíus Magnús­son sem bar fyrir­liða­bandið hjá liðinu á síðasta tíma­bili er það tryggði sér sigur í næst­efstu deild Noregs og þar með sæti í norsku úr­vals­deildinni á næsta tíma­bili.

Auk hins skil­orðs­bundna dóms mun Mikkjal þurfa að skila af sér því sem nemur þrjá­tíu dögum í sam­fé­lags­þjónustu.

Mikkjal var fundinn sekur um að hafa haft í hótunum við leik­mann í Fær­eyjum á meðan að hann sló hann í brjóst­kassann. Telst það sannað að Mikkjal hafi haft þetta að segja við um­ræddan leik­mann:

„Ég mun fót­brjóta þig, eyði­leggja fót­bolta­feril þinn og mann­orð þitt.“

Eftir að dóm­stóllinn kvað upp sinn dóm sendi Mikkjal frá sér yfir­lýsingu þar sem að hann baðst af­sökunar á at­hæfi sínu. Hann sættir sig við um­rædda refsingu og er glaður með að málið sé nú úr sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×