Fótbolti

Þurfum sögu­leg úr­slit: Ís­land hefur aldrei unnið Ísrael

Aron Guðmundsson skrifar
Íslenska landsliðið mun þurfa að tengja saman tvo sigra í mars á næsta ári til að tryggja sér sæti á EM 2024 í Þýskalandi
Íslenska landsliðið mun þurfa að tengja saman tvo sigra í mars á næsta ári til að tryggja sér sæti á EM 2024 í Þýskalandi Vísir/Getty

Íslenska karlalandsliðið þarf að brjóta blað í sögunni til þess að tryggja sér sæti í úrslitum EM-umspilsins í mars á næsta ári. Liðið leikur undanúrslitaleik við Ísrael í mars.

Þetta varð ljóst þegar að dregið var í umspilið núna í morgun. Ísrael situr í 71.sæti á heims­lista FIFA, fjórum sætum neðar en Ís­land og lék í I-riðli í ný­af­staðinni undan­keppni.

Þar var Ísrael í riðli með Rúmeníu, Sviss, Hvíta-Rúss­landi, Kos­ó­vó og Andorra og endaði í 3.sæti riðilsins með 15 stig eftir fjóra sigra, þrjú jafn­tefli, þrjú töp og marka­töluna 0 eftir ellefu skoruð mörk á móti ellefu fengnum á sig.

Nokkuð ljóst þykir að sökum ólgunnar fyrir botni Mið­jarðar­hafs verði leikurinn ekki spilaður í Ísrael og muni því verða spilaður á hlut­lausum velli ein­hvers staðar í Evrópu. Síðasti heimaleikur Ísrael fór fram á Pancho leikvanginum í Ungverjalandi þann 18. nóvember síðastliðinn.

Fimm leikir, enginn sigur

Ís­lenska karla­lands­liðið í knatt­spyrnu hefur ekkið riðið feitum hesti frá viður­eignum sínum við Ísrael í gegnum tíðina.

Alls hafa karla­lands­lið þessara þjóða mæst fimm sinnum. Þrisvar sinnum hafa liðin gert jafn­tefli en í hinum tveimur leikjunum hefur Ís­land þurft að sætta sig við tap. Síðast mættust þessi lið þann 13.júní árið 2022, þá í Þjóða­deildinni, í leik sem endaði með 2-2 jafn­tefli.

Frá leik Íslands og Ísrael í fyrraVísir/Getty

Af­rek ísraelska lands­liðsins á knatt­spyrnu­vellinum eru ekki mikil. Liðið hefur aldrei tekið þátt í loka­keppni EM en náði þó, árið 1970, að tryggja sér sæti á HM.

Fengu þann markahæsta aftur

Þekktasti leik­maður liðsins er án efa marka­hrókurinn marg­reyndi Eran Za­havi sem lék með Mac­cabi Tel Aviv gegn Breiða­bliki í Sam­bands­deild Evrópu fyrr á árinu.

Þessi þaul­reyndi leik­maður er marka­hæsti leik­maður ísraelska lands­liðsins frá upp­hafi.

Zahavi í leik með Maccabi Tel Aviv Mynd: Maccabi Tel Aviv

Za­havi, hafði lagt lands­liðs­skóna á hilluna árið 2022 en svaraði á dögunum kalli ísraelsku þjóðarinnar og hóf að leika með lands­liðinu á nýjan leik

Hann er marka­hæsti lands­liðs­maður Ísrael frá upp­hafi og hefur í gegnum sinn feril spilað með liðum á borð við Paler­mo, PSV Eind­hoven, Guangz­hou City sem og Hapoel og Mac­cabi Tel Aviv, komist í vana með það að raða inn mörkum.

555 leikir á at­vinnu­manna­stigi, yfir 330 mörk og yfir 90 stoð­sendingar er töl­­fræðin sem býr að baki spila­­mennsku Za­havi.

Á síðasta tíma­bili fór hann fyrir liði Mac­cabi Tel Aviv, skoraði 26 mörk í 40 leikjum og kom alls að 29 mörkum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×