Fótbolti

Messi: Þetta hefði getað endað sem harm­leikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hafði miklar áhyggjur af argentínsku stuðningsmönnunum í stúkunni eftir meðferðina frá brasilísku lögreglunni.
Lionel Messi hafði miklar áhyggjur af argentínsku stuðningsmönnunum í stúkunni eftir meðferðina frá brasilísku lögreglunni. AP/Silvia Izquierdo

Lionel Messi var harðorður þegar hann tjáði sig um slagsmálin og aðgerðir brasilísku lögreglunnar á leik Argentínu og Brasilíu í undankeppni HM í nótt.

Argentína vann þarna 1-0 sigur á Brasilíu en leiknum seinkaði um tuttugu mínútur vegna óláta í stúkunni.

Lögreglan réðst í framhaldinu á stuðningsmenn argentínska landsliðsins og Messi sagði frá því að á því svæði hefðu verið fjölskyldur og vinir leikmanna argentínska landsliðsins.

Messi og félagar hans reyndu að róa stuðningsmennina áður en þeir fóru inn í klefa og biðu eftir því að allt róaðist. Það má sjá þá ganga þangað hér fyrir neðan.

„Þetta var slæmt vegna þess hvernig lögreglan var að berja fólkið,“ sagði Lionel Messi.

„Við fórum inn í búningsklefa af því að það var besta leiðin til að róa fólk. Þetta hefði getað endað sem harmleikur,“ sagði Messi.

„Þú ferð að hugsa um fjölskyldurnar og fólkið sem er hér. Við vitum ekki hvað sé í gangi og höfðum miklar áhyggjur. Það að spila fótboltaleik á þeirri stundu var orðið aukaatriði,“ sagði Messi.

Leikurinn fór af stað en þótt að Messi hafi ekki náð að skora þá vann Argentína þarna fyrsta sigurinn í sögu undankeppni HM á Brasilíu í Brasilíu.

„Við sáum hvernig lögreglan var að berja fólk og margir leikmenn voru með fjölskyldu sína á þessum stað í stúkunni. Við náðum ekki að einbeita okkur að því að spila leikinn. Þetta gerðist líka hérna í Copa Libertadores. Brasilíska lögreglan er enn á ný að beita ofbeldi gegn fólki,“ sagði Messi.

„Þetta lið heldur áfram að skrifa söguna. Frábær sigur á Maracana en honum verður þó minnst fyrir einn eitt ofbeldið gegn argentínsku stuðningsfólki í Brasilíu. Þessa klikkun má ekki líða og þessu verður að ljúka núna,“ sagði Messi harðorður.

Þeir fögnuðu samt sigrinum eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×