Lífið

Dansandi skólaliði á Sauð­ár­króki með nem­endum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svanhildur Jóhannesdóttir, skólaliði í Árskóla, sem á heiðurinn og frumkvæðið af dansinum í frímínútunum í skólanum. Krakkarnir fá að velja lögin í símanum hennar og svo er dansað og dansað.
Svanhildur Jóhannesdóttir, skólaliði í Árskóla, sem á heiðurinn og frumkvæðið af dansinum í frímínútunum í skólanum. Krakkarnir fá að velja lögin í símanum hennar og svo er dansað og dansað. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eitt af því allra skemmtilegasta sem nemendur í Árskóla á Sauðárkróki gera er að dansa út í frímínútum þar sem lög með Skagfirðingnum Geirmundi Valtýssyni þykja lang skemmtilegust að dansa við.

Árskóli er flottur grunnskóli með skemmtilegum nemendum og starfsmönnum þar sem einkunnarorð skólans eru Lifa – leika – læra. Eins og í öðrum grunnskólum landsins þá finnst nemendum oftast skemmtilegast í frímínútum þar sem hægt er að gera fjölbreytta og skemmtilega hluti í frísku lofti og alls konar veðri.

Einn stuðningsfulltrúi Árskóla, Svanhildur Jóhannesdóttir hefur tekið upp á því að fá nemendur til að dansa með sér í frímínútunum og það finnst krökkunum ekki leiðinlegt. Fyrst tekur hún ein lagið og æfir danssporin með Geirmundi Valtýssyni og svo fara nemendur að hópast til hennar og ég varð að fá að prófa líka að vera aðeins með.

„Þau velja lögin í símanum mínum og svo setjum við bara allt í botn í hátalarakerfinu og dönsum og dönsum”,segir Svanhildur.

Og lagavalið hjá krökkunum er mjög fjölbreytt og þau dansa allskonar dansa með Svanhildi.

En er gaman í dansinum með Svanhildi?

„Já, já“, segja krakkarnir einum rómi.

Svanhildur segir að krakkarnir elski að vera úti að dansa, það brjóti upp skólastarfið og brjóti frímínúturnar upp. Þá séu strákarnir ekkert síður í dansinum en stelpurnar. Allir vilji vera með.

Krökkunum finnst frábært að dansa saman úti í frímínútunum. Lögin með Geirmundi Valtýssyni eru alltaf mjög vinsæl hjá þeim.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×