Erlent

Vilja að herinn fjar­lægi for­sætis­ráð­herra með valdi

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Pedro Sánchez var kjörinn forsætisráðherra á fimmtudag. 
Pedro Sánchez var kjörinn forsætisráðherra á fimmtudag.  AP

Ný ríkisstjórn tók við Spáni í vikunni. Mikil heift er í spænska samfélaginu vegna stjórnarmyndunarinnar og rúmlega 50 fyrrverandi foringjar í spænska hernum hafa skorað á herinn að fjarlæga forsætisráðherrann með valdi.

Það fór eins og flesta grunaði, Pedro Sánchez, leiðtoga sósíalista, tókst að safna meirihluta á bak við sig og mynda starfhæfa ríkisstjórn.

Hún nýtur stuðnings 8 af 10 flokkum spænska þingsins, einungis Lýðflokkurinn, stærsti flokkur landsins og VOX, flokkur öfgahægrisinna, mynda stjórnarandstöðuna, en liðsmunurinn er þó ekki mikill.

Til að ná meirihluta samdi Sánchez við flokk aðskilnaðarinna í Katalóniu um að veita öllum þeim sem hlutu dóma fyrir aðild sína að ólöglegri atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu árið 2017 sakaruppgjöf.

Það hefur orsakað meiri heift í spænsku samfélagi og spænskum stjórnmálum en dæmi eru um um áratuga skeið. Almenningur hefur mótmælt á götum Madrid og annarra borga í tvær vikur samfellt og fjölmargir af hinum ysta hægri væng hafa verið handteknir eftir átök við lögreglu.

Munnsöfnuður þingmanna vegna stjórnarmyndunarinnar hefur ekki verið til fyrirmyndar og leiðtogi öfgahægrimanna, Santiago Abascal, gekk svo langt að líkja Pedro Sánchez við Adolf Hitler og var atyrtur fyrir vikið af þingforseta.

Þegar þingmenn gengu úr húsi á fimmtudag eftir að hin nýja stjórn var tekin við réðust sjö karlmenn á fertugsaldri að fjórum þingmönnum sósíalista með skömmum og svívirðingum og enduðu með því að hella yfir þá kaffi og eggjum. Það sem vakti athygli var að þetta voru stjórnendur fyrirtækja í fasteignabransanum, bankaheiminum og tölvugeiranum. Menn sem einhvern tímann hefðu verið kallaðir broddborgarar.

Á föstudag sendu 56 fyrrverandi foringjar í spænska hernum opið bréf til spænska hersins þar sem þeir skora á herinn að fjarlægja Pedro Sánchez úr embætti forsætisráðherra með valdi. Fréttaskýrendur segja að aldrei áður í sögu hins 40 ára lýðveldis á Spáni hafi eins opinskátt verið hvatt til valdaráns.


Tengdar fréttir

Sánchez náði að mynda ríkisstjórn

Pedro Sánchez, formaður spænska sósíalíska verkamannaflokksins, hefur náð að mynda ríkisstjórn með fjögurra þingmanna meirihluta. Hann verður því forsætisráðherra Spánar annað kjörtímabil.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×