Innlent

Telur galla í hönnun Foss­vogs­brúarinnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ellert Már segir mikilvægt að brugðist verði við áður en brúin fer í byggingu. Gert er ráð fyrir fyrsta útboði um áramót og að framkvæmdir hefjist á vormánuðum.
Ellert Már segir mikilvægt að brugðist verði við áður en brúin fer í byggingu. Gert er ráð fyrir fyrsta útboði um áramót og að framkvæmdir hefjist á vormánuðum. Vísir/Vilhelm og Efla

Byggingarverkfræðingur telur áríðandi að breyta hönnun Fossvogsbrúarinnar áður en hún kemur til framkvæmda svo fólk geti notið sólarlagsins áhyggjulaust. Gangandi umferð þurfi að vera á vestari hluta brúarinnar ólíkt því sem hönnun geri ráð fyrir. Framkvæmdastjóri Betri samgangna segir hönnunina úthugsaða.

Fossvogsbrúin tengir tvö stærstu sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og landsins alls, Reykjavík og Kópavog. Annar endi hennar verður í Skerjafirði í Reykjavík og hinn á Kársnesinu í Kópavogi. Tillaga að breytingum á deiliskipulagi á svæðinu í kringum brúna hafa verið sendar í auglýsingu. 

„Ég er búinn að vera með þetta í kollinum frá því ég sá brúna fyrst. Nú þegar líður að framkvæmdum varð ég að koma þessu frá mér. Þetta er mitt hjartans mál um þessar mundir og ég er náttúrulega með brúna smá á heilanum. Allir sem ég tala við eru sama sinnis og ég,“ segir Ellert Már Jónsson, byggingaverkfræðingur, í samtali við fréttastofu.

Gert er ráð fyrir því í núverandi hönnun að hjólastígur sé á vestari hluta brúarinnar og göngustígur á þeim austari. Ellert Már bendir á að sólin fari að skína á vesturhluta brúarinnar upp úr klukkan 14 á daginn og skuggamyndun frá handriðum, bekkjum og fleira byrjar á austari hlutanum samtímis. Hann segir að séð frá austari hluta brúarinnar muni stór hluti sjávarflatarins hverfa í brúargólf, handrið og annað og speglum sólarinnar hverfur þá nánast. 

„Þar sem sólin er Íslendingum svo kær og fallegt sólarlag bræðir hjörtu okkar er ég viss um að löngun fólks til að sjá ósnortið sólarlag af brúnni yrði til þess fólk færi iðulega frá göngusvæði austan megin yfir á vesturhlið, yfir akbrautina og inn á hjólastíginn. Þetta skapar hættu og eina ráðið væri að girða af akbrautina svo enginn komist yfir nema „fuglinn fljúgandi“,“ segir Ellert.

Á myndinni má sjá þversnið af brúnni þar sem hjólastígurinn er vinstra megin og göngustígurinn hægra megin. Mynd/Efla

Hönnunarkeppni fór fram um hönnun brúarinnar sem lauk í desember árið 2021. Þá var tilkynnt að verkfræðistofan Efla hefði unnið með tillögu sinni um Öldu. Brúin þverar allan voginn og er ein helsta forsenda þess að Borgarlínan gangi upp í núverandi hönnun.

Áningarstaðir við hvorn enda og á göngustíg

Gert er ráð fyrir því í núverandi hönnunartillögu að vestanmegin brúarinnar verði hjólastígur þar sem enga áningarstaði er að finna en austanmegin verði svæði fyrir gangandi og þremur áningarstöðum. Tekið er fram í tillögunni að til að koma til móts við þau sem vilja njóta útsýnis vestanmegin sé gert ráð fyrir tveimur áningarstöðum við hvorn enda brúarinnar vestanmegin. Þar er að finna bæði bekki og hjólastanda. Á milli er svo vegur til að aka ökutækjum á.

Fram kemur í tillögu um brúna að einnig sé gert ráð fyrir fjórum áningar- og útsýnisstöðum fyrir bæði gangangi og hjólandi í landmótuninni við brúna, allir við strandlengjuna. Frá brúnni verður hægt að horfa á ýmis kennileiti eins og Bessastaði, Snæfellsjökul og Hallgrímskirkju.

Svona mun brúin líta út og útsýnið. Mynd/Efla

Þá kemur enn fremur fram í tillögunni að lega hjólastígsins vestan megin hámarki öryggi og skjól þeirra sem hjólandi eru og verja þau fyrir austanátt, sem er ríkjandi, þar sem kantsteinar og álfasteinar standa að hluta upp fyrir brúargólfið. Í tillögunni segir að þetta sé afar mikilvægt þar sem stór hluti þeirra sem hjólandi eru setja veðuraðstæður ekki fyrir sig.

Hér að neðan má sjá mynd af vindaðstæðum á brúnni miðað við núverandi hönnun en við skýringu hennar í tillögunni segir að kantbitarnir tryggi að engar snarpar breytingar verði í vindaðstæðum eftir brúnni. Jafnvel þar sem kantbiti er lægstur, framan við álfasteina, eru talin nokkuð jákvæð skjóláhrif af honum á áningarstöðunum.

Fyrsta útboð um áramót

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjóra Betri samgangna er gert ráð fyrir að útboð hefjist í upphafi næsta árs og hægt verði að hefja framkvæmdir á vormánuðum ársins 2024. Fyrst verður boðin út vinna við landfyllingar á Kársnesi og við Nauthólsvík vegna brúarinnar.

Þar kemur einnig fram að gert sé ráð fyrir því að sex til níu þúsund manns muni eiga leið um brúna daglega með almenningssamgöngum þegar Borgarlínan verður komin í fulla notkun, auk þeirra sem eru hjólandi og gangandi.

Mynd af sólarlagi við Bessastaði frá Ellert.

Gert er ráð fyrir að 6-9.000 manns muni eiga leið um hana með almenningssamgöngum daglega, þegar Borgarlínan verður komin í fulla notkun, auk fjölda gangandi og hjólandi. Brúin verður í miklu návígi við eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins í Nauthólsvík og Öskjuhlíð auk nýrrar byggðar og útvistarsvæða meðfram strandlengju Kópavogs.

Ellert Már segir að sem dæmi, ef fólk myndi hefja göngu á Ægisíðu við Hofsvallagötu um klukkan 14 að sumri og gangi yfir brúna að Sky Lagoon sé það með „tæra sól frá toppi til táar“ á sér allan tímann ef brúin er spegluð. 

„Ef núverandi hönnun yrði ofan á þá yrðir þú að krossa tvisvar akbraut og hjólastíg á þessari leið og á brúnni yrðir þú sem „skuggabaldur“ og frá Skerjafirði er ekki gengið undir brúna eins og á Kársnesinu til að komast á gönguleiðina.“

Skýringarmynd sem Ellert gerði.

Spurður út í öryggi hjólafólks segir hann þeim gefinn of mikill gaumur í tillögunni. Gera megi ráð fyrir því að miklu fleiri verði gangandi en hjólandi og það sérstaklega ef brúin er spegluð. 

„Varðandi rok og rigningu á brúnni þá er ekkert einfaldara að loka hjólaleiðinni í óveðrum með ljósastýringu og beina hjólamönnum á göngusvæðið og þeir einfaldlega leiða hjónin yfir brúna. Brúin er falleg og stílhrein. Hún getur orðið stórkostleg ef ungir sem aldnir geta óhindrað orðið vitni af því þegar sólin speglast í haffletinum og sest að lokum í Álftanesi. Í gegnum Bessastaði þá verður hún gullmoli.“

Kolbrún tekur undir hugmyndir Ellerts Más. Vísir/Vilhelm

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins vakti líka athygli á málinu á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í vikunni þar sem hún lagði fram fyrirspurn um málið.

„Núverandi hönnun gerir ráð fyrir hjólastíg á vesturhluta brúarinnar og göngustíg austan megin. Eins og hönnun Fossvogsbrúar hefur verið kynnt myndi sólin fara að skína á vesturhlið brúarinnar milli kl. 13.00 og 14.00. Þá myndast skuggar frá handriðum inn á brúna. Göngusvæði austan megin „króast“ af og tapast þá útsýnisupplifun þeirra sem ganga yfir brúna. Þannig skerðist ásýnd sólarlagsins í handriðum, brúargólfinu og umferð Borgarlínuvagna sem gleðja myndi augað ef gönguleiðin er vestan megin á brúnni,“ segir í fyrirspurn Kolbrúnar.

Hún bendir á, eins og Ellert Már, að upplifunin yrði miklu sterkari ef leiðunum yrði víxlað og gengið væri austanmegin brúarinnar og segir það þess virði að kanna málið áður en málin ferð lengra.

Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna segir ekki koma til greina að breyta hönnuninni og að hönnunin sé algerlega úthugsuð.

Davíð Þorláksson er framkvæmdastjóri Betri samgangna. Vísir/Arnar

„Fólk getur séð sólarupprásina og brúin er ekki það breið að þú getir ekki séð sólarlagið hinum megin. Þetta eru ekki mistök að þetta sé svona. Þetta er úthugsað og hönnuðirnir hafa komist að því að það er best að hafa þetta svona. Það er búið að skoða þetta og tillagan sem við erum með er besta útfærslan.“


Tengdar fréttir

Sam­göngu­bætur eða átta milljarða krúnu­djásn

Í síðustu viku birtist á Vísi.is frumleg grein um brú. Þar er lagt til að skattgreiðendur komi sér upp brú yfir Fossvoginn, frá Nauthólsvík yfir í Kársnesið, u.þ.b. einn og hálfan kílómetra fyrir vestan Kringlumýrarbraut. Brúin á að vera fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, fyrir Strætó og Borgarlínu, ef ske kynni að einhver hluti hennar kæmist einhvern tímann í gagnið.

Nýtt hlið að höfuð­borgar­svæðinu

Nú styttist í að hægt verði að bjóða út fyrstu framkvæmdir vegna nýrrar Fossvogsbrúar, Öldu. Brúin verður krúnudjásnið í þeim framkvæmdum sem felast í Samgöngusáttmálanum. Í honum eru ellefu stofnvegaframkvæmdir, sex lotur Borgarlínunnar, fjöldi hjóla- og göngustíga, auk fjárfestinga í umferðarljósabúnaði og minni framkvæmdum sem bæta munu öryggi og umferðarflæði.

Verður fyrsta lota Borgar­línunnar bana­biti hennar eða loka á­fangi?

Frá fyrstu tíð hef ég verið 100% sammála því að rétt sé að ráðast í lagningu Borgarlínunnar sem fyrst. Þegar AR2010-2030 var gefið út fagnaði ég því vegna þess að þar var Borgarlínan og samgönguásinn lykilatriði sem batt höfuðborgina saman í línulega heild.

Seinka tímalínu framkvæmda við fyrstu lotu Borgarlínunnar

Verkefnastofa Borgarlínunnar hefur ákveðið að framkvæmdalok fyrstu lotu Borgarlínunnar verði tvískipt. Áður var reiknað með að fyrsta lotan yrði tilbúin seinni hluta ársins 2025. Uppfærð áætlun gerir ráð fyrir að framkvæmdalok tvískiptrar fyrstu lotu verði 2026 og 2027.

Ný brú yfir Fossvog tilbúin eftir um tvö ár

Borgarstjóra og bæjarstjóra Kópavogs líst vel á vinningstillögu að brú milli Reykjavíkurflugvallar og Kársness sem kynnt var í dag. Brúin verður eitt fyrsta mannvirkið sem tengist Borgarlínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×