Innlent

Ás­mundur segir til­boðið frá bönkunum móðgun við Grind­víkinga

Jakob Bjarnar skrifar
Ásmundur Friðriksson fordæmdi tilboð banka og lánastofnana til handa Grindvíkingum, en þeim hefur verið lofað greiðslustöðvun fasteignalána, algera móðgun.
Ásmundur Friðriksson fordæmdi tilboð banka og lánastofnana til handa Grindvíkingum, en þeim hefur verið lofað greiðslustöðvun fasteignalána, algera móðgun. Vísir/Arnar

Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki er meðal þeirra sem steig í pontu í dagskrárliðnum störf þingsins. Hann gerði fasteignalán til Grindvíkinga að umtalsefni.

Ásmundur hóf máls sitt á því að tala um að alþingi og ríkisstjórn væru eins og slökkvilið fyrir Grindvíkinga nú um stundir og mikilvægt að hratt og örugglega yrði brugðist við. Heimilin séu ónýt og þau sem enn standa tóm því fólki væri gert að finna sér annan viðverustað.

„Í því ljósi, herra forseti, finnst mér það tilboð sem bankarnir gerðu Grindvíkingum um að stöðva afborganir en halda áfram að rukka vexti og verðbætur af fasteignalánum nánast hjákátlega brosleg í þeirri stöðu sem nú er uppi. Bankarnir þurfa ekki, í þessum kringumstæðum, að hagnast á Grindvíkingum. Vaxtaokrið í þessu landi er nóg og verðbæturnar sem ofan á það bætast,“ sagði Ásmundur.

Fyrr í dag skrifaði Sigríður María Eyþórsdóttir kirkjuvörður í kirkju Grindavíkur viðhorfspistil sem var mjög á sömu lund og það sem Ásmundur vildi leggja á borð þingsins.

Ásmundur sagði að nú þyrfti fólk að leigja sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar og hann taldi engin efni standa til að fólk gæti borgað tvöfalt.

„Ég byrjaði þessa umræðu á mánudaginn var. Og varaði þá við því strax að það yrði að bregðast við því strax að íbúar í Grindavík yrðu að losna undan þeim afborgunum af fasteignalánum, vöxtum og verðtryggingu. Og þeim yrði tryggð laun, fyrirtækjum yrði tryggt að þau gætu haldið áfram að greiða laun til starfsmanna sinna. Og þeim yrði gert kleift að hefja rekstur eins fljótt og hægt er,“ sagði 7. þingmaður Suðurlands. 

Ásmundur sagði jafnframt að það yrði að búa svo um hnúta að íbúunum gæfist færi á að koma sér fyrir og það yrðum við að gera á þann hátt að þeim líði eins bærilega með það og hægt er. 

„Og í því ljósi er það tilboð sem liggur fyrir frá bönkunum og lánastofnunum algerlega óviðunandi. Það er nánast móðgun við fólk að bjóða þetta,“ sagði Ásmundur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×