Fótbolti

Lék ungan Messi en er nú farinn að skora fyrir Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valentino Acuna fagnar marki sínu fyrir sautján ára landslið Argentínu í gær.
Valentino Acuna fagnar marki sínu fyrir sautján ára landslið Argentínu í gær. AP/Achmad Ibrahim

Valentino Acuna fékk það verkefni sem lítill strákur að leika ungan Lionel Messi í heimildarmyndinni „Messi“ sem kom út árið 2014. Nú er hann farinn að skora sjálfur mörk fyrir Argentínu.

Acuna er fæddur í janúar 2006 og var því á áttunda aldursári þegar senurnar í myndinni voru teknar upp. Nú er hann sautján ára og að spila með U17 liði Argentínu á heimsmeistaramótinu.

Acuna er frá Rosario eins og Messi en hann vann sig líka upp hjá Newell's Old Boys liðinu alveg eins og Messi gerði sjálfur. Messi fór aftur á móti mjög ungur til Barcelona á Spáni.

Acuna er enn að spila með Newell's Old Boys og spilar með unglingaliði þess.

Acuna var á skotskónum á HM sautján ára landsliða í Indónesíu í gær en hann skoraði annað mark argentínska landsliðsins í 3-1 sigri á Japan.

Acuna byrjaði leikinn á miðjunni í leikkerfinu 4-2-3-1 og er því að spila aftar á vellinum en Messi. Hann náði engu að síður að skora í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×