Fótbolti

Á metið bæði sem leik­maður og þjálfari

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xabi Alonso er að gera góða hluti sem þjálfari.
Xabi Alonso er að gera góða hluti sem þjálfari. EPA-EFE/CHRISTOPHER NEUNDORF

Lærisveinar Xabi Alonso í Bayer Leverkusen hafa heldur betur komið á óvart á þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Liðið hefur nú jafnað árangur Bayern München frá 2015 þegar Alonso var leikmaður liðsins.

Hinn 41 árs gamli Alonso tók við Leverkusen á síðustu leiktíð og sneri gengi liðsins algjörlega við. Það var þó erfitt að sjá fyrir sér að gengið á núverandi leiktíð yrði jafn gott og raun ber vitni.

Leverkusen hefur hins vegar spilað frábærlega og hefur ekki enn beðið ósigur þegar 11 umferðir eru búnar af þýsku úrvalsdeildinni. Leverkusen er með 31 stig og trónir á toppnum en Þýskalandsmeistarar Bayern koma þar á eftir með 29 stig. Bæði lið eru ósigruð.

Með einkar öruggum 4-0 sigri á lánlausu liði Union Berlín um helgina þá jafnaði Leverkusen met Bayern frá tímabilinu 2015-16. Bayern, undir dyggri stjórn Pep Guardiola, var þá einnig með 31 stig af 33 mögulegum að loknum 11 umferðum. Ekkert lið í sögunni hafði fengið fleiri stig og stendur metið enn. Nú deilir Leverkusen metinu hins vegar með Bayern.

Það sem meira er, Xabi Alonso var á þeim tíma leikmaður Bayern og stór ástæða þess að liðið stóð uppi sem Þýskalandsmeistari vorið 2024 með 88 stig. Hvort Alonso sé farinn að láta sig dreyma um að endurtaka leikinn verður hann að svara fyrir en byrjunin bendir allavega til þess að Bayern fái alvöru keppinaut í baráttunni um þýska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×