Fótbolti

Fimmti í röð án sigurs hjá læri­sveinum Freys

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu
Andri Lucas Guðjohnsen fagnar einu marka sinna með Lyngby á tímabilinu Vísir/Getty

Danska liðið Lyngby tapaði í dag gegn Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þetta er fimmti deildarleikur Lyngby í röð án sigurs.

Þrír Íslendingar voru í byrjunarliði Lyngby í dag. Sævar Atli Magnússon var á miðjunni, Kolbeinn Finnsson úti vinstra megin og Andri Lucas Guðjohnsen í framlínunni. Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins en Gylfi Þór Sigurðsson er frá keppni vegna meiðsla.

Fyrir leikinn var Lyngby í 8. sæti með 16 stig en Vejle þremur sætum neðar með 12 stig.

Fyrri hálfleikurinn í dag var markalaus en um miðjan síðari hálfleikinn náðu heimamenn í Vejle forystu eftir mark frá German Onugkha. Lið Lyngby reyndi hvað það gat til að jafna metin en tókst ekki.

Lokatölur 1-0 og Lyngby lék þar með sinn fimmta deildarleik í röð án sigurs. Liðið vann sigur eftir vítakeppni á Helsingör í bikarnum í lok október en hefur ekki unnið sigur í deildinni síðan 2. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×