Erlent

Í­búar Ohio sam­þykkja að festa réttinn til þungunarrofs í stjórnar­skrá

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Niðurstöðunni var ákaft fagnað af stuðningsmönnum tillögunnar í gær.
Niðurstöðunni var ákaft fagnað af stuðningsmönnum tillögunnar í gær. AP/Sue Ogrocki

Gengið var til kosninga víða í Bandaríkjunum í gær, þar sem kosið var um ríkisstjóra, hæstaréttardómara og ýmsar tillögur. Í Ohio bar til tíðinda, þar sem 56,6 prósent íbúa kusu að festa réttinn til þungunarrofs í stjórnarskrá ríkisins.

Niðurstöðurnar eru ekki síst athyglisverðar í ljósi þess að Repúblikanar eru í meirihluta í bæði neðri og efri deild þingsins í Ohio og vonir standa til þess að þær séu til marks um að þungunarrof verði ofarlega í huga kjósenda þegar gengið verður til kosninga á næsta ári.

Viðauka verður nú bætt við stjórnarskrána sem kveður á um rétt einstaklingsins til að taka eigin ákvarðanir er varða frjósemi og barneignir og mun tryggja konum réttinn til getnaðarvarna og þungunarrofs auk þjónustu þegar fósturlát á sér stað.

Stuðningsmenn tillögunar höfðu varað við því að yrði hún ekki samþykkt væri hætta á því að þingið þrengdi að fyrrnefndum réttindum með lagasetningu en andstæðingar tillögunnar sögðu hætt við að hún opnaði á þungunarrof langt fram eftir meðgöngu.

Eins og sakir standa er þungunarrof heimilað fram að 22. viku.

Samkvæmt tillögunni mun viðaukinn fela í sér blátt bann við því að ríkið grípi til íþyngjandi aðgerða, banni eða geri refsivert þungunarrof fyrir þann tíma er fóstur getur lifað utan líkama móðurinnar. Það viðmið er gjarnan 23. eða 24. vika.

Viðaukinn mun heimila ríkisvaldinu að takmarka aðgengi að þungunarrofi eftir þann tíma en það verður að heimila þungunarrof þegar læknir telur það nauðsynlegt til að varðveita heilsu og/eða líf.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×