Fótbolti

Hissa á því að fyrir­liðinn bað Haaland um treyju í hálf­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Ali Camara hjálpar Erling Haaland á fætur eftir glímu þeirra í leiknum.
Mohamed Ali Camara hjálpar Erling Haaland á fætur eftir glímu þeirra í leiknum. Getty/Simon Stacpoole

Young Boys tapaði 3-0 á móti Manchester City í Meistaradeildinni í gærkvöldi en það var þó kannski ekki tapið sem var sárast fyrir marga stuðningsmenn svissneska liðsins.

Mohamed Ali, fyrirliði Young Boys, ætlaði alls ekki að missa af því að komast yfir treyjum Manchester City stórstjörnunnar Erling Haaland.

Ali bað því Haaland um treyjuna á leiðinni til búningsklefa í hálfleik. Þetta náðist á myndavélar á vellinum og margir voru hneykslaðir enda fyrirliði liðsins.

Haaland hafði þarna þegar skorað annað af tveimur mörkum sínum í leiknum.

Raphael Wicky, þjálfari Young Boys, vissi ekki af þessu þegar þetta var borið undir hann á blaðamannafundi.

„Ég sá þetta ekki og þetta eru því fréttir fyrir mig. Þetta kemur mér svolítið á óvart,“ sagði Wicky.

„Ég held að sama skapi að þetta hafi ekkert með leikinn að gera eða frammistöðuna. Ég mun líklega ræða við hann og heyra hans hlið. Kannski bað Erling hann um að skipta við sig. Ég veit það ekki,“ sagði Wicky.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×