Enski boltinn

Arsenal nálgast kaup á belgíska Busquets

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arthur Vermeeren er afar eftirsóttur.
Arthur Vermeeren er afar eftirsóttur. getty/Jeroen van den Berg

Silfurlið ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, Arsenal, færist nær því að kaupa einn efnilegasta leikmann Belgíu. Sá heitir Arthur Vermeeren og er átján ára miðjumaður hjá Belgíumeisturum Antwerp.

Samkvæmt Sport á Spáni er Arsenal nú með forystuna í kapphlaupinu um Vermeeren og komið fram úr Barcelona sem þótti líklegast til að kaupa strákinn.

Talið er að Arsenal muni greiða þrettán milljónir punda fyrir Vermeeren sem lék sinn fyrsta landsleik fyrir Belgíu á þessu ári.

Vermeeren hefur verið fastamaður hjá Antwerp frá því í fyrra. Hann varð tvöfaldur meistari með liðinu á síðasta tímabili. Í vetur hefur hann svo leikið með liðinu í Meistaradeild Evrópu.

Vermeeren er flinkur miðjumaður sem þykir mjög þroskaður miðað við aldur. Honum hefur meðal annars verið líkt við Sergio Busquets, fyrrverandi leikmann Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×