Innlent

Heils­árs­dekk um­tals­vert verri en önnur

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vega- og samgöngurannsóknarstofnun Svíþjóðar mælir með því að fólk noti hefðbundin vetrardekk á veturna og sumardekk á sumrin.
Vega- og samgöngurannsóknarstofnun Svíþjóðar mælir með því að fólk noti hefðbundin vetrardekk á veturna og sumardekk á sumrin. Getty Images

„Heilsársdekk eru umtalsvert verri en venjuleg vetrar- og sumardekk óháð yfirborði vegar. Við hálku aðstæður í vetrarfærð teljast dekkin ónothæf til aksturs á sænskum vegum,“ segir í skýrslu frá vega- og samgöngurannsóknarstofnun Svíþjóðar.

Félag íslenskra bifreiðeiganda vekur athygli á skýrslunni á heimasíðu sinni en rannsóknin var gerð í samstarfi við vátryggingafélagið Folksam.

Í rannsókninni voru fjórtán mismunandi tegundir af heilsársdekkjum prófuð í hálku, snjó og á þurri jörð. Markmiðið var að rannsaka eiginleika heilsársdekkja við mismunandi aðstæður, saman borið við naglalaus vetrardekk fyrir norrænar og miðevrópskar aðstæður - sem og sumardekk.

Fram kom að mikill munur var á hemlunarvegalengd við allar aðstæður. Í snjó var hemlunarvegalengdin fyrir vetrarviðurkennd heilsársdekk til að mynda um 10 til 30 prósent lengri en fyrir norræn viðmiðunarvetrardekk. Í hálku var hún 25 til 50 prósent lengri. Í sumarfæri var hemlunarvegalengdin um 5 til 30 prósent lengri, bæði á þurru og blautu malbiki, saman borið við hefðbundið sumardekk.

Á síðu FÍB segir að heilsársdekk séu ófullnægjandi búnaður til notkunar í Svíþjóð að mati vega- og samgöngurannsóknarstofnunarinnar. Nota eigi hefðbundin vetrardekk á veturna og sumardekk á sumrin. Heilsársdekk séu almennt ekki góð og þá sé einnig töluverður munur á hemlunarvegalengd og veggripi milli mismunandi dekkja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×