Fótbolti

Rubiales dæmdur í þriggja ára bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Rubiales varð sér til skammar á úrslitaleik kvenna og má nú ekki koma nálægt fótbolta næstu þrjú árin.
Luis Rubiales varð sér til skammar á úrslitaleik kvenna og má nú ekki koma nálægt fótbolta næstu þrjú árin. Getty/Alex Pantling

Luis Rubiales, fyrrum forseti spænska knattspyrnusambandsins, hefur verið dæmdur í þriggja ára bann frá öllum afskiptum af fótbolta.

Aganefnd Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, dæmdi Rubiales í þetta 36 mánaða bann fyrir hegðun hans eftir úrslitaleik HM kvenna sem fór fram 20. ágúst síðastliðinn.

Rubiales kyssti þá Jenni Hermoso, leikmann spænska liðsins, í verðlaunaafhendingunni en hún gaf ekki samþykki fyrir kossinum. Rubiales ásakaði hana hins vegar um að ljúga því en þetta var ekki eina dæmið um vafasama hegðun hans þetta kvöld.

Spænska ríkistjórnin, FIFA, Sameinuðu þjóðirnar og fjöldi leikmanna af báðum kynjum höfðu fordæmt framkomu hans og FIFA setti hann fyrst í tímabundið bann. Nú hefur lokadómurinn fallið.

Rubiales neitaði að segja af sér sem leiddi til þess að Hermoso og fleiri leikmenn hótuðu að hætta að gefa kost á sér í landsliðið.

Spænska landsliðið varð heimsmeistari en þetta leiðindamál með Rubiales stal þrumunni af þeim og hertók alla umfjöllun um mótið.

Rubiales var tilkynnt um niðurstöðuna í dag en hann getur enn áfrýjað dómnum.


Tengdar fréttir

Ráð­herra gagn­rýnir getu­leysi karla­liðsins í máli Her­mos­o

Victor Francos, íþróttamálaráðherra Spánar, segir spænska karlalandsliðið í fótbolta ekki hafa sýnt kvennalandsliðinu nægilega mikinn stuðning eftir að ásakanir Jenni Hermoso, leikmanns liðsins, á hendur Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins litu dagsins ljós.

Beiðni um nálgunar­bann á Ru­bi­a­­les sam­þykkt

Beiðni sak­sóknara­em­bættisins á Spáni, þess efnis að nálgunarbann yrði sett á Luis Ru­bi­a­les, fyrrum for­seta spænska knatt­spyrnu­sam­bandsins til þess að koma í veg fyrir að hann hafi sam­band við Jenni Her­mos­o, leik­mann spænska kvenna­lands­liðsins, hefur verið samþykkt

Koss dauðans hjá Rubiales

Luis Rubiales hefur tilkynnt að hann muni segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins. Þetta staðfesti hann í spjallþætti með Piers Morgan í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×