Fótbolti

Heiðar Helguson aðstoðar Bjarna á Selfossi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heiðar Helguson og Ingi Rafn Ingibergsson verða aðstoðarþjálfarar á Selfossi.
Heiðar Helguson og Ingi Rafn Ingibergsson verða aðstoðarþjálfarar á Selfossi. Selfoss

Heiðar Helguson, fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Bjarna Jóhannssonar á Selfossi.

Selfyssingar féllu úr Lengjudeildinni á nýafstöðnu tímabili og í kjölfarið lét Dean Martin af störfum sem þjálfari liðsins. Bjarni Jóhannsson var svo kynntur til leiks sem nýr þjálfari liðsins á dögunum og nú hafa Selfyssingar ráðið Heiðar Helguson, ásamt Inga Rafni Ingibergssyni, sem aðstoðarmann Bjarna.

https://www.instagram.com/p/Cy-ukHIAV9H/?utm_source=ig_web_copy_link&fbclid=IwAR1zu61To-6BByNY6WPSQp7y9PsvfQX0v6BGlRHhBNFV3EijXxgy9JbxDHU

Heiðar Helguson er flestum íslenskum knattspyrnuáhugamönnum kunnugur, en hann lék sem atvinnumaður í um 15 ár á sínum ferli. Hann lék lengst af með Watford, en lék einnig með liðum á borð við Fulham, QPR, Bolton, Cardiff og Lilleström. Hann á að baki 96 leiki í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann skoraði 28 mörk.

Þá skoraði Heiðar einnig tólf mörk í 55 leikjum fyrir íslenska A-landsliðið á sínum ferli.

Þjálfaraferill Heiðars er þó ekki langur, en hann var aðstoðarþjálfari Kórdrengja tímabilin 2021 og 2022. Hann fær nú það verðuga verkefni að aðstoða Bjarna Jóhannsson að koma Selfyssingum upp í Lengjudeildina, og jafnvel Bestu-deildina, á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×