Fótbolti

KR boðar til blaða­manna­fundar og kynnir lík­lega nýjan þjálfara í dag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rúnar Kristinsson lét af störfum sem þjálfari KR eftir síðasta tímabil.
Rúnar Kristinsson lét af störfum sem þjálfari KR eftir síðasta tímabil. Vísir/Hulda Margrét

Knattspyrnudeild KR hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag þar sem nýr þjálfari liðsins verður að öllum líkindum kynntur til leiks.

KR sendi frá sér stutta fréttatilkynningu á heimasíðu sinni í morgun þar sem blaða- og stuðningsmönnum er boðið á fund. Félagið hefur verið í þjálfaraleit síðan Rúnar Kristinsson yfirgaf félagið að síðasta tímabili loknu og má því gera ráð fyrir því að nýr þjálfari verið kynntur til leiks í dag.

„Stjórn Knattspyrnudeildar KR boðar til blaðamannafundar í Félagsheimili KR í dag kl. 16:00,“ segir í tilkynningu KR.

„Blaðamannafundurinn er opinn fyrir stuðningsmenn félagsins. Allir sem einn - Áfram KR!“

Flestir knattspyrnuáhugamenn hafa velt því fyrir sér undanfarnar vikur hver muni taka við KR. Nöfn á borð við Óskar Hrafn Þorvaldsson, Halldór Árnason og Ólafur Ingi Skúlason hafa verið nefnd í umræðunni, en þeir hafa allir hafnað félaginu eða róið á önnur mið.

Gregg Ryder, fyrrverandi þjálfari Þróttar og aðstoðarþjálfari ÍBV, er hins vegar nafn sem heyrist hvað mest í umræðunni um þjálfaramál KR, en klukkan 16:00 síðar í dag kemur í ljós hver tekur við félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×